23.11.2016 kl. 18:49

Kominn tími á fjórðu leiðina

Sturla benti réttilega á það í vor þegar hann bauð sig fram til forseta, að samkvæmt Stjórnarskrá Lýðveldisins, skipar forseti ráðherra og veitir þeim lausn. Guðni benti hins vegar á og studdi að hefðin væri önnur, og þjóðin var því meðvirk.

Bandaríkin eru eina þjóðríkið í veröldinni þar sem meirihluti þjóðarinnar, eða þeir sem telja sig til hennar, er stolt af stjórnarskrá sinni og telur að í meginatriðum sé eftir henni farið.

Íslenska Ástandið (State, of) er hins vegar þannig að meirihluti þeirra sem trúa sig tilheyra þjóðinni vita að stjórnarskránni þurfi að breyta án þess að hafa lesið hana, og hafa fæstir hugmynd um að hún er blóri og ógildur samningur án siðferðissáttmála.

Auðvelt er að tíunda hin ýmsu stjórnlagabrot og best að byrja á hefðinni um hvernig Lýðveldisflokkarnir og forseti þess, láta hefðina ríkja um stjórnarmyndun og hunsa stofnskjal sitt.

Hins vegar er löngu ljóst, mér og fleirum en ekki öllum ennþá, að tilgangslaust er að útskýra fyrir fólki að stjórnarskrá er stofnsamningur félags, því þó allir viti að Jesú var spámaður en ekki hálfguð, þá þurfa menn líkneski til að taka við blórabænum skrílsins.

Var þetta flókin yfirlýsing fyrir lesendahóp sem er 90% samansettur af löglega skýrðum og vottuðum (fermdum) kristnum tilbiðjendum? Þekkja þeir sakramentin sín jafn vel og stofnsamning ástands (State, of) síns?

Allir sem vettlingi geta valdið, og hafa lengra minni en áratug aftur í tímann í stjórnmálasögu landans, vita að sitjandi ríkisstjórn boðar ekki til kosninga upp úr þurru á síðari hluta tímabils síns, þó nokkrir mótmælendur reiðist því að svo til óþekkt kona geymi arf í útlöndum. 

Jafnvel heilasteyptir og stjarfdáleiddir vita að forseti leysir upp Alþingi og boðar til kosninga - að því undangengnu að forsætisráðherra gangi á hans fund. Sömuleiðis vita flestir fluglæsinna og vel menntaðra samtímamanna að þegar ekki tekst að mynda stjórn þrem vikum eftir kosningar, ríkir stjórnarkreppa.

Hið undarlega er að í þessu ferli öllu, frá því síðastliðið vor, veit enginn í hverju hin eiginlega stjórnarkreppa felst. Enginn stjórnmálaskýrandi eða stjórnmálafræðingur útskýrir það. Allir stjórnmálamenn mæta brosmæltir í viðtöl og gjálfra soldið en segja ekkert, ætíð gleiðbrosandi og mildir.

Eitthvað er í gangi. Getur verið að það sé löngu ákveðið að Sagnfræðiforsetinn - sem ég hef stundum í góðvild uppnefnt Piparkökudrenginn - skipi utanþingsstjórn sem skuggavaldið vill nota í einhverjum tilgangi, en að fyrst þurfi að skjalfæra stjórnarkreppuna innan skjalavaldsins?

Ég veit ekki hvort kenningin stenst. Ég er löngu hættur að skilja hvað er í gangi á landinu okkar. Ég veit bara að það er löngu flogið norður og niður. Hitt veit ég að Úlfahópurinn er til, þó hann sé undir feld í dag.

Einnig veit ég að Þjóðveldið lifir góðu lífi og þar gengur vel. Við samþykktum nýlega lög um riftun Gamla sáttmála. Einnig höfum við samþkykkt fánalög og erum búin að samþykkja viðmiðunarreglur um hvenær borgari sé staðfestur borgari (og þar með þingmaður í Héraði).

Þá hefur í fyrsta sinn í stjórnmálasögu landsins verið samþykkt að fresta afgreiðslu frumvarps en hafa það opið - þriðji kostur kosningar getur einmitt verið að málið sé hvorki samþykkt né því hafnað, heldur haft uppi við án afgreiðslu.

Fjórði kosturinn í stjórnmálum hefur lengi verið boðaður af Alexander Dugin í Rússlandi. Að Vinstri, Miðja og Hægri sé úrelt, heldur þurfi að færast yfir í fjórðu víddina. Hann hefur sínar hugmyndir um það. Úlfahópurinn hefur Íslenzka útfærslu á því og hef ég áður útskýrt þá útfærslu á öðrum vettvangi.

Aðal málið er þetta; Við þurfum ekki að vera bundin á bás hins dul-stýrða ramma. Við höfum frjálsa hugsun, þó ríkis-innprentunin og fyrirsagna-fjölmiðlunin hafi reynt að binda hana á bás alla okkar ævi. Að tengja saman hugmyndir og setningar sem við ómeðvitað létum setja inn í huga okkar sé nefnt hugsun, þá er hugsun allt annað.