23.7.2014 kl. 12:57

Hvað er iðrun og fyrirgefning

Í dag birtist sú frétt að Anders Breivik iðrist. Ég hef ætíð forðast að skrifa um hann. Mér er illa við það sem hann gerði og það sem hann stóð fyrir með gjörðum sínum. Ég vil ekki vita að hann sé til. Hluti af mér sem manneskju vill hafa hann í glerbúri til sýnis í Útey - ævina alla - en þó þannig að enginn geti meitt hann

Þannig vildi ég gjarna gefa honum afar langt færi á að hugsa og skilja hvað hann gerði af sér. Því þannig fæðist iðrun.

En ég er líka kristinn maður sem trúi á boðskap þess Guðs sem Jesú Kristur, og allir aðrir spámenn, hafa boðað; að Guð sé kærleikur. Ég hefi oft lesið þá setningu í Biblíunni þar sem Jesú sagði „allt verður mönnum fyrirgefið á himni og á jörð, nema synd gegn heilögum anda.“ Það er stundum erfitt að kyngja þeirri línu.

Páll postuli er oft nefndur annar faðir kristinnar trúar á eftir Jesú sjálfum. Páll var vel menntaður farísei sem tók kristna trú fáeinum mánuðum eftir að Jesú var horfinn á braut. Þegar hann tók trú skipti hann um nafn en hann hét áður Sál og var kenndur við fæðingarborg sína Tarsus. 

Það er algengt að hinn venjulegi maður hafi ekki lesið kristnu ritningarnar all ítarlega. Fólk hefur lært fyrir ferminguna, heyrt helstu dæmisögurnar og sumir fóru í sunnudagaskóla. Framhjá þeim fer oft að Sál frá Tarsus var morðingi.

Sá sami og síðar tók sér nafnið Páll og gerðist einn öflugasti boðberi kristinnar trúar var maður sem hundelti kristna menn, sem fyrirliði teymis sem skipulagt var af prestum musterisins mikla í Jerúsalem. Hvar sem náðist til kristinna manna voru þeir miskunnarlaust grýttir til bana sem guðlastarar. 

Ódæðisverk Páls gegn kristnum mönnum voru honum fyrirgefin af postulunum sem skipulögðu fyrstu kristnu söfnuðina og byggðu upp þær undirstöður, trúboðs og kenninga, sem síðar urðu ein öflugasta kærleiks og friðar trú sem sést hefur á jörðinni. Trú sem kennir þolinmæði, umburðarlyndi, trúfesti, og fleiri góða hluti. Trú sem er þess eðlis að hún umbreytir hjarta og æði þeirra sem hana innbyrða í hjarta sitt.

Margir eiga erfitt með fyrirgefningu, enda er hún eðlis síns vegna erfið.

Það er ekki að ástæðulausu að fyrirgefning er ein öflugasta og dýrmætasta afstaða sem trúað fólk tileinkar sér. Því vil ég undirstrika orðið Tileinkar, því fyrirgefning er afstaða og vilji en ekki tilfinning í hita leiksins.

Ég hef þá afstöðu og ég tileinka mér það viðhorf að fyrirgefa, en ekki að gleyma. Ég fyrirgef Breivik hans kaldrifjuðu morð, ég neita að dæma hann sem manneskju eða taka afstöðu til orða hans. Ég vil að hann sé lokaður inni eins lengi og hægt er, því ég treysti honum ekki til að ganga frjáls innan samfélags.

Taki hann umbreytingu hjarta og sinnis óska ég þess að hann vaxi í þeirri afstöðu. Bið ég góðan Guð að fyrirgefa honum og styrkja mig í að gera það einnig. ég vil ekki neita honum um að vera lifandi manneskja sem geti tekið iðrun og yfirbót rétt eins og önnur illmenni í sögunni sem gert hafa slíkt hið sama.

Ég er sjálfur í dag umbreytt manneskja sem snúið hefur frá villu eigin fortíðar og tekið umbreytingu. Ég gerði hið sama og Páll, ég iðraðist og opnaði fyrir umbreytingu. Hið sama og Jeús nefndi svo oft, að iðrast.

Fyrirgefning er sem fyrr segir afstaða þess sem gefur. Iðrun er hins vegar allt annars eðlis, því hún er innri hvatning til að segja, fyrst við sjálfan sig, síðan við Guð, og að lokum við samfélagið, ég iðrast þess sem ég hef gjört og vil ekki vera áfram sú mannvera. Ef ég stend frammi fyrir manneskju sem segir Fyrirgefðu eða Ég iðrast, hver væri ég þá ef ég tek ekki við þeirri iðrun, og á sama tíma biðja algóðan Guð að taka við minni?

Fyrirgefning er ætíð gjöf til að gefa öðrum að umbreytast og vaxa, hún er einnig sjálfsgjöf að gefa sjálfum sér frelsi frá reiði og sligandi dóms- og hefndarþorsta. Ég vona svo sannarlega, sálar hans vegna, að hann meini það sem hann segir og verji því sem eftir er jarðvistar sinnar í að sýna það í verki.