13.5.2016 kl. 18:15
Grátt er geð miðaldra guma
Er ekki Óttar karlinn bara að fá útrás fyrir duldar hvatir og misskrýtnar hugsanir sem laumast að körlum eftir vissan aldur? Sjálfur er ég að bisa við erótíska bók - sem heitir á ensku Kamasutra Files - þar sem ég glími við allskyns þanka miðaldrafólks sem er að máta reynslubankann, og fantasíur, við tabú síns samtíma.
Við samningu Kamasutra Files hef ég oft velt fyrir mér hvernig þetta var hjá liðnum kynslóðum og skal fúslega viðurkenna að hlutir sem ég las í Íslendingasögum, og þá ekki síst bæði Njálu og Sturlungu, hafa verið mér heilbrigð kvatning.
Þannig séð held ég að við öllu lesum á milli línanna, hvort heldur það er hjá Þorbergi eða Ara.
Eitt af því sem ég hef helst tekið eftir og slær mig síðan ég hóf undirbúning að minni bók, er hversu miklar stíflur eru í menningunni. Síðan '68 kynslóðin dansaði nakin í túninu vestan við bæjarlækinn, höfum við smámsaman brotið af okkur ýmsa hlekki.
Hins vegar tek ég eftir að viss kynslóð kvenna elskar þessar sögur - eða fantasíur - en ég betaprófa sögurnar jafnóðum á Netinu (er líklega búinn að gefa út þriðjung kaflanna) - en jafnframt að margir verða verri en kaþólskir siðapóstular (sérstaklega vel siðaðir kerfisstjórar erlendis).
Ég tók fyrstu skrefin með bókina fyrir rúmum þrem árum, og fékk fín viðbrögð, en dró svo í land. Einmitt vegna þess ég þorði ekki gegn mínum eigin innri - eða þjóðfélagsmótuðu - hindrunum, og þá ekki síst vegna annarra hugðarefna sem mér fannst skarast. Svo leið tími og smámsaman áttaði ég mig á, að þó '68 kynslóðin hefði brotið viss klakabönd, þá væri ennþá stöðuvatnið helfrosið.
Við sjáum það best á því hversu feimin við erum með umræður um kynlíf, fantasíur, hneigðir og hvatir, að ekki sé minnst á myndbirtingar eða hreinlega að ganga nakin um (í það minnsta heima fyrir).
Því hvað er heilbrigðara en náttúruleg nekt og náttúrulegar hvatir, og það vekur spurningar, hversu öflug tabúin og yfirborðsmennskan er, að við getum varla rætt þessi mál kinnroðalaust.
Þá spyr ég t.d. svo ég snúi við því sem ég hóf pistilinn á, hvort Óttar sé kannski að benda okkur á eitthvað í samtíma okkar en viti að fenginni reynslu að ekki er hægt að segja suma hluti með beinum hætti. Þú segir ekki við íslenska konu „mig langar að ríða þér“ nema fullur, en þú mátt segja við hana „kanntu eitthvað fyrir þér“ og glotta eins og fáviti.
Þegar ég fyrst fékk hugmyndina að Kamasutra Files var ég einmitt að velta fyrir mér hvort hægt væri að skrifa bók sem myndi taka fyrir kynlífsiðkanir, og jafnvel fara út fyrir hefðbundin mörk þess sem má stunda, lýsa öllu en um leið að gera það með heimspekilegu og jafnvel sálrænu ívafi.
Segja má að ég hafi verið að svara spurningunni; hvernig kynlífsbók myndi ég skrifa handa miðaldra húsmóður sem veit hvernig lífið er? Handritið er ennþá uppkast, og sem fyrr segir er aðeins þriðjungurinn kominn á Vefinn, og ég er ekki búinn að klára nýtt form sem ég nota í birtingu sem gerir bókina dálítið þunga í niðurhali. Bið áhugasama sem gægjast í hana að virða við mig að hún er enn í smíðum.