19.7.2014 kl. 21:09
Af Ljósálfum
Í grein minni Álfafirrð minntist ég á Ljósálfa og lofaði þar að skrifa grein um þessar merkilegu verur. Ljósálfar eru flestum ósýnilegir og það jafnvel ófreskum. Ekki aðeins að ljósálfar séu ósýnilegir heldur er nær ómögulegt að skynja nærveru þeirra á meðvitaðan hátt.
Undantekningin til að skynja ljósálfa með skýrum hætti eða svo óyggjandi sé, er við eldsloga.
Þegar eldur logar glatt, hvort heldur lítið kerti, varðeldur eða stærra, þá þyrpast ljósálfar ætíð þangað og dansa á logunum. Gætið orðanna vel - á logunum - því þeir fara ekki niður í logann né inn í eldinn. Líkja mætti dansi þessum við línudans þar sem álfaverurnar eins og tippla létt ofan á topp eldslogans og því meira sem eldurinn dansar því meira kætist ljósálfaveran, skríkir og hlær og skemmtir sér vel.
Eitt af því sem gerist þegar við erum nærri eldi er að hugur okkar nemur upp annan blæ en við erum vön í dags daglegum hlutveruleika. Þar sem við erum við eldsloga, hvort heldur kertislogi eða stærra, skynjum við nærveru ljósálfa sem draumkenndan blæ. Ástæða þessa er sú að hvar sem ljósálfur fer um, hefur hann áhrif á hugarástand þeirra lífvera sem nærri eru.
Við þekkjum þetta best þegar við verðum fjarræn eða fáum störu. Nokkuð sem gerist nær undantekningarlaust við eld en einnig við aðrar aðstæður. Þegar við erum í slíku hugarástandi, og á það einnig við aðrar lífverur sköpunarverksins, má treysta því að ljósálfur er í grennd.
Getur hann verið stór sem smár en stærð er honum afstæð. Ljósálfi þykir stærð í fáránlegt hugtak og er honum ómælanleg. Honum er því slétt sama um hvernig sólargeislinn er sem hann ferðast eftir, við hlið okkar veruleika, enda er hann sjálfur líkari ljósbroti nema hann hefur vilja.
Hver veit þó hvað ljósgeislar eru því þeir gætu hæglega verið vilji sköpunarinnar. Eins og vísdindi skammtafræðinnar hafa leitt í ljós virðist sólarljós vera bæði bylgja og eind. Jafn fjarstæðukennt sem það virðist. Auk þess sem hraði ljóssins er afar hægur innan efnisheimsins, enda væri engin lífvera bænheyrð ef ekki væri til eitthvað sem hefur meiri hraða en ljós.
Annað sem vert er að minnast á þegar ljósálfar eru annars vegar og það er ást þeirra á dvergum og sögusteinum.
Ég hef minnst á dverga á öðrum stað en þeir eru þeirrar náttúru gæddir að lifa helst í stórum og djúpum klettum. Þeir hafa enga getu eða tækni til að framleiða ljós og hita en eina skíman í vistarverum dverga er þegar ljósálfar ferðast um heimkynni þeirra og einnig þegar mannverur sem kunna við þá samskipti gefa þeim útkulnandi glóðir.
Sögusteinar eru til margskonar, en þeir vinsælustu eru stórir. Þeir stærri eru þannig að hægt er ýmist að setjast á þá eða í skjóli þeirra. Steinar þessir hafa oft tengingar við dverga á máta sem ekki er rétt að gera skil hér. Nær undantekningalaust eiga Ljósálfar ferðir um og við sögusteina og hafa þar svipuð áhrif eins og við eldsloga.
Ljósálfar hafa þá sérstöku náttúru að vera óháðir tíma og rúmi - eins og þegar minnst er á stærðareiningar. Skal nú áhrifum þessum gerð skil.
Það svið tilverunnar sem eru heimkynni þeirra er mun draumkenndara og fíngerðara en okkar og jafnvel fíngerðara en það ljós sem við erum vön að miða tilveru okkar við. Þannig er að þeir hafa einstaka unun að koma yfir á okkar veröld og bera með sér sumar þær gjafir sem ríkja handan við mörk heimanna en þeir nýta kraft eldsins til að opna gáttir þar á milli. Sögusteina nota þeir hins vegar til að auðvelda sér að skauta um okkar heim og í dvergabyggðum styrkja þeir kraft sinn.
Þetta eru sumsé gjafir ljósálfa, að þeir bera okkur vakningu sögunnar. Þeir vekja ímyndunarafl okkar til dáða og leiða okkar um fínlega stigu þess að sagan sé meira en frásaga. Vert er að minnast á að hægt er að finna smáa sögusteina í fjörum, á fjöllum og í lækjum, svo fárra staða sé minnst á.
Í blálokin væri vert að geta frægasta ljósálfs sem um getur, en það er Gló í sögunni um Pétur Pan. Líklega er sú skemmtilega fjöruga ljósvera einmitt sú sama og blés höfundi sögunnar í brjóst að rita þessa skemmtilegu ævintýrasögu. Hver veit nema hún hafi áður blásið ungum dreng það í brjóst að finna fyrstu stjörnu til hægri og beint til morguns, þar sem hann býr enn.