5.7.2014 kl. 23:59

Fiskifroða og sýndarspuni

Ég hef nóg ritað á þessum vettvangi um fyrirbæri á borð við Beint lýðræði og arfleifð okkar ágætu menningar. Hef ég fært eldri færslur mínar yfir á aðal ritveg minn á hreinberg.is.

Á þessu bloggsvæði mun ég áfram ræða um sýn á hið dulræna í vitund okkar Íslendinga en í þessari færslu verður þó undantekning á.

Nú ber svo við að undanfarið hafa málefni gamals vinnustaðar míns - Fiskistofu - verið í umræðunni. Margt ber á góma og sumt spaugilegra en annað. Sérstaklega er áhugavert að starfsfólki þeirrar ágætu eftirlitsstofnunar var boðin áfallahjálp vegna fréttar um að boðaföll kæmu á störf þeirra eftir hálft annað ár.

Einn vinnufélagi þessa góða fólks var beittur svívirðilegu mannréttindabroti veturinn 2009 til 2010 og er það mál kyrfilega óhreyft. Verkalýðsfélag hans - SFR - þvoði hendur sínar af að aðstoða manninn bæði þá og síðar. Mál það hefur haft skelfilegar afleiðingar en upphafi þeirrar sögu hefur þegar verið gerð skil í bók minni „Varðmenn kvótans - fiskisaga af einelti“.

Einn þáttakandi í sögunni Varðmenn kvótans var sviðsstjóri Upplýsingasviðs Fiskistofu þegar sú saga fór gerðist.

Hafði hún mikla reynslu og innsýn í starf stofnunarinnar. Sami þáttakandi hefur komist í fjölmiðla síðan og þó hún sé ekki á vörum manna  þá starfar hún náið með þeim ráðherra sem málið varðar. Eins og ljóst má vera af þeim tenglum sem hér fylgja þá hefur aðstoðarkona ráðherra einstaka reynslu af innviðum Fiskistofu, sýn á starfsemi hennar og þekkir vel starfsfólk hennar.

Í þessu ljósi er áhugaverð frétt - auk fleiri frétta - á forsíðu Fréttablaðsins þar sem sýnt er fram á að þegar fjórar ríkisstofnanir voru fluttar út á landi fluttu aðeins þrír starfsmenn búferlum. Ljóst má vera að valdafólki er ljóst þegar svo stór ákvörðun er tekin hvernig hún muni að öllum líkindum rekjast upp, enda er það starf þessa fólks að taka ákvarðanir af grandvarleika og íhygli.

Í fréttum þessum öllum fór það framhjá mörgum - og hugsanlega flestum - að tölvudeildin verður ekki flutt með stofnuninni norður, sem vekur fleiri spurningar en svör.

Aðal spurningin í mínum huga er þessi: Hvaða pólitíski spuni er á bak við að hálfloka stofnuninni með óbeinum hreinsunum? Hvað sér ráðherra í þeim spilum sem sérþekking aðstoðarkonu hans vísar á? Sjálfur hef ég oft velt fyrir mér hversu hratt sú ágæta kona hefur klifið metorðastigann.

Sem fyrr segir hef ég lítinn hug á að puða meira um samfélagsmálin hér á blog.is.

Ég varði rúmu ári í skrif um Lýðræðisarf okkar Íslendinga og hef klárað þau að mestu. Það er þannig þegar maður hefur ekkert betra að gera en að skrifa: Maður tekur fyrir eitt málefni í senn og ég hef snúið mér að öðrum skrifum.

Fiskifroðu spuninn er engu að síður áhugaverður og ég hvet lesandann til að líta snögglega á tenglana sem ég skellti hér með, þeir útskýra betur ýmislegt sem ég aðeins gef í skyn. Einnig mæli ég með Varðmenn kvótans - sú bók veltir upp í lokin tveim risastórum spurningum sem hvergi finnast í umræðu okkar samtíma. Þær spurningar hafa meira með stjórnkerfið að gera sem heild en umrædda stofnun.