26.10.2015 kl. 13:00

Áætluð landráð Elítu og Skuggavalds

Eins og allir vita er Sáttmáli Lýðveldisins einskis nýtur samningur á milli þjóðar og elítu því skjalið var samið einhliða og kosning þess framkvæmd með blekkingu. Hún snérist um hvort þjóðin vildi sambandsslit frá Dönum, Já eða Nei?

Á undan kosningu þessari var engin samræða innan þjóðarinnar um það hvað í plagginu skyldi standa og þegar valkosturinn er Stalínsk kosning, þá er lýðræðið Lýgi.

Um þetta hef ég nóg fjallað á öðrum vettvangi og all ítarlega. Ef mér hefur eitthvað lærst þau þrjú ár sem ég hef unnið að vakningu þessarar samræðu í samfélagi okkar, þá er eitt atriði mest áberandi.

Fólk les helst ekki texta þar sem orðið stjórnarskrá sést í fyrirsögn eða bregður fyrir í fyrstu málsgreinum textans. Ég veit ekki hvaða Þjóðfélagsverkfræði hefur náð þessum árangri fyrir hönd Elítunnar - eða Skuggavaldsins - en dást verður að snilldinni sem meitlað hefur hugarafl þjóðarinnar svo afgerandi.

Ljóst þykir að hin vel menntaða þjóð les ekki plaggið, setur sig ekki inn í efni þess, eða álítur að það komi sér ekki við

Á síðustu dögum hefur mér orðið ljóst að framið var þögult valdarán í beinni útsendingu síðla árs 2013. Íslenska Lýðveldið hefur í dag ólöglega ríkisstjórn og ólöglegt þing, auk þess sem forseti þess hefur forsmáð heiður sinn og svikið eiðstaf sinn.

Ekki er þetta mín skoðun heldur lagaleg staðreynd og útskýrði ég rækilega í síðustu færslu minni. Einnig hef ég gert stutt myndskeið um þetta á Youtube fyrir þá sem ekki lesa bloggfærslur.

Hið áhugaverða er; öllum virðist sléttsama. Engin viðbrögð! Þjóðin er andlega dauð eða hugsun hennar steinrunnin!

Ég vil því bæta við fyrri skrif mín og vitna í grein 86 í Almenninnum hegningarlögum (nr. 19/1940). Greinin er svohljóðandi:

86. gr. Hver, sem sekur gerist um verknað, sem miðar að því, að reynt verði með ofbeldi, hótun um ofbeldi, annarri nauðung eða svikum að ráða íslenska ríkið eða hluta þess undir erlend yfirráð, eða að ráða annars einhvern hluta ríkisins undan forræði þess, skal sæta fangelsi ekki skemur en 4 ár eða ævilangt.

Byggir framangreint að hluta til á grein 21. í einhliða Sáttmála ríkis og þjóðar sem hljóðar svo: 

21. gr. Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til.“

Þegar rýnt er í þessa texta má draga beinlínis þá ályktun að þegar elítan samdi sáttmálann, þá var settur skammarlegur varnagli í hann. Því Alþingi getur ákveðið að framselja yfirráð ríkisins yfir sjálfu sér, eða fengið forsetann til þess.

Þetta er þó ekki almennur skilningur þeirra meðal þjóðar vorrar sem lesið hafa plaggið, en á þessum grundvelli - auk vissrar hefðar - var EES samningurinn keyrður í gegn. Eins og þjóðin veit þá trúir hún að hún græði á þeim samningi en svo er ekki. Fáum virðist ljóst hversu mörg lög eru sjálfkrafa samþykkt við Austurvöll, beinlínis vegna þessa samnings.

Meðal annars var hrunið 2008 hérlendis aðallega mögulegt vegna EES samningsins. En þess utan brást Frú Vigdís Finnbogadóttir eið sínum við stjórnarskrá þegar hún skrifaði undir lögin um hann. Sem er í mínum huga glæpur gegn þjóð og frúin rúin heiðri, rétt eins og Hr. Ólafur R. Grímsson.

Stjórnarskrárnefnd 2013 er að undirbúa og róa að því öllum árum að nýr viðauki komi í plaggið; sumsé að Lýðveldið (Elítan og Skuggavaldið) geti framselt vald ríkisins til stofnana og alþjóðasamninga (TTIP eðA TPP, eða álíka) hvernig sem þeim sýnist

Þetta er undirbúningur að mun stærri landráðum en EES samningurinn. Við vitum að þjóðinni virðist sama og bregst tæplega við þessu frekar en Valdaráninu 2013. Ég veit því ekki hvers vegna ég er að tuða þetta, enda veit ég fyrirfram að það er tilgangslítið.

Við vitum að betra væri að mjólka nokkrar túristakýr og hita upp grillið með kvöldinu. Ljúkum því pistlinum með smá hæðni; Guð blessi Íslenzka og skítt með Umskiptinginn sem veit ekki sinn vitjunartíma.