14.8.2021 kl. 10:52

Að skírast í eldi

Varstu alinn upp af fólki sem sannfærði þig um að þú værir skrýtinn eða kjáni eða vitleysingur vegna ýmislegs sem þú lést út úr þér eða gerðir?
 
Þá eyddirðu líklegast hálfri ævinni í vantrú og mistrú á sjálfan þig þar til þú komst að því eftir kennslu tilverunnar að þú ert gáfaðri en fólkið sem ól þig upp, og jafnvel þegar þú skildir það vildirðu ekki viðurkenna það.
 
Staðreyndin er sú að fólk sem er alið upp í þjáningu og sjálfsefa, flytur það yfir á börn og sérstaklega börn sem sýnilega eru greindari en það sjálft. Í fyrsta lagi til að endurgera sjálf sig og réttlæta eigin innri bjögun og í síðara lagi til að draga hinn niður á eigið plan.
 
Þetta er reynsla nær allra sem síðar skildu blekkingar og lygarakerfi heimsins. Þeir sem mest tjá sig um téðar blekkingar og tælingar er fólkið sem vann úr sársaukanum og þjáningunni sem þeim var gefinn í uppeldinu, í stað undirbúnings, styrkingar og hvatningar.
 
Undantekningalaust gengur þetta fólk, sem í raun er skírt í eldi, fram í umburðarlyndi og kærleika til annarra, því þetta er fólkið sem hefur um aldir alda varið siðmenningu mannsins gegn árásum djöfullegrar hugsunar.
 
Ef þú kannast við þessa lýsingu, þó ekki sé nema til hálfs, þá ert þú einn af hetjum mannshugans. Tja, þú þarft nottla fyrst að fá vottun hjá mér.
 
Þetta hefur ekkert með hugmyndafræði að gera eða heimssýn. Þetta hefur að gera með það hvort þú ert manneskja (sköpuð af Náttúrunni eða Guði) eða Mann-Vera (skilgreind af akademíunni). Eins og einhver sagði "skilgreindu takmörk þín og þau eru þín" og annar sagði "láttu aðra skilgreina takmörk þín og þeir eiga þig."
 
Manneskjur eru mannfólk og þau berjast núna fyrir menningu sinni, Mannverur eru Mannkyn Darwinismans (sem núna tilbiðja Sprautólf) og smart-city loftslagsvísindanna.
 
Mig langar í blálokin að minna á að ég skil ekki reikniformúlur á borð við greindarvísitölur (I.Q). Ég hef fimm vitundarþætti, Rökvitund (I.Q), Tilfinningavitund, Andlegavitund, Líkamsvitund og Óvitund (Void, Unconscious).
 
Rétt eins og höndin notar fimm fingur, er vitund mín djúp og tær (svo vitnað sé í Stein Steinarr) og töluleg mæling er í því samhengi frekar hallærisleg. Greindur maður er sá sem reynir á eigin mörk, heimskingi er maður sem aldrei nær þeim.