25.10.2015 kl. 00:23

Sitjandi stjórnvöld eru í trássi við stjórnlög Lýðveldis

Eftirfarandi er tilvitnun úr Stjórnarskrá Lýðveldisins Ísland frá 1944. Greinin er númer 79 í því ágæta plaggi:

79. gr. Tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari, má bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka-Alþingi. Nái tillagan samþykki …1) skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju. Samþykki [Alþingi]1) ályktunina óbreytta, skal hún staðfest af forseta lýðveldisins, og er hún þá gild stjórnskipunarlög.
Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.

 

Ennfremur segir grein númer 10: 

10. gr. Forsetinn vinnur eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni, er hann tekur við störfum. Af eiðstaf þessum eða heiti skal gera tvö samhljóða frumrit. Geymir Alþingi annað, en þjóðskjalasafnið hitt.

Miðað er við þann texta téðrar stjórnarskrár sem finna má á eftirfarandi vefslóð, sem ku vera vefur Alþingis við Austurvöll: 

http://www.althingi.is/lagas/nuna/1944033.html

Á vef Forsætisráðuneytis (Lýðveldis) má finna ítarlegar upplýsingar um svonefnda Stjórnarskrárnefnd 2013. Þar má ýmsar upplýsingar er lúta að starfi téðrar nefndar.

Vefslóð á þessar upplýsingar er eftirfarandi:

http://www.forsaetisraduneyti.is/stjornarskra/stjornarskrarnefnd/

Sé leitað frekar í þeim síðum sem þarna finnast þá liggur ekki ljóst fyrir við fyrstu sýn samkvæmt hvaða lögum téð nefnd vinnur. Hugsanlegt er að það sé feimnismál. Ekki hafa margar fréttir verið um starfsemi þessarar nefndar og allar fréttir dálítið matreiddar, svo rétt þótti að gramsa.

Á vef Forsætisráðuneytis má finna frétt frá 6.11.2013 þar sem sagt er frá stofnun nefndar þessarar og vísað í þau lög sem um hana fjalla. Fréttin er á eftirfarandi vefslóð og kemur í ljós að um er að ræða lög 91/2013:

http://www.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/7766

Á vef Alþingis má finna lög nr. 91/2013, á eftirfarandi vefslóð:

http://www.althingi.is/altext/142/s/0088.html

Fyrsta grein þessara laga, sem eru tvær greinar, er svohljóðandi:

„Við stjórnarskrána bætist nýtt ákvæði um stundarsakir, svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 79. gr. er heimilt, fram til 30. apríl 2017, að breyta stjórnarskránni með eftirfarandi hætti: Samþykki Alþingi frumvarp til laga um breytingu á stjórnarskrá með minnst 2 '3 hlutum greiddra atkvæða skal það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Atkvæðagreiðslan skal fara fram í fyrsta lagi sex mánuðum og í síðasta lagi níu mánuðum eftir samþykkt frumvarpsins á Alþingi. Til þess að frumvarpið teljist samþykkt þarf það að hafa hlotið meiri hluta gildra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslunni, þó minnst atkvæði 40 af hundraði allra kosningarbærra manna, og skal það staðfest af forseta lýðveldisins og telst þá gild stjórnarskipunarlög. Í heiti frumvarps til stjórnarskipunarlaga á þessum grundvelli skal koma fram tilvísun til ákvæðis þessa. Um þjóðaratkvæðagreiðsluna fer samkvæmt lögum.“

 

Lög númer 91/2013 er alvarlegt Stjórnarskrárbrot. Sitjandi Ríkisstjórn ásamt sitjandi Alþingi, svo og Forseti Íslands (Lýðveldisins) Ólafur Ragnar Grímsson hafa hér brotið helgustu lög landsins og svívirt lýðræðisreglur Íslenska Lýðveldisins.

Forseta ber að rjúfa þing. Hann hefur ennfremur brotið svardaga sína, sá sami og áður hefur notað orð á borð við skítlegt eðli um annað fólk, getur ekki lengur heiðursmaður kallast, og á því að segja af sér.

Ennfremur standa eftirfarandi spurningar: Hvernig kæri ég stjórnlagabrot? Hver eru viðurlög við slíku? Hvers virði er eiðstafur að stjórnarskrá?

Einnegin: Hvers virði er þjóð sem ekki stendur vörð um stjórnlagasamning sinn? Hvers virði er stjórnlagasamningur sem er einhliða?

Taka skal fram að búið er að prenta út framangreindar slóðir. Læt ég öðrum borgurum um að taka afstöðu til þessa máls.

Að endingu, sé það óljóst, má taka fram að allt sem Stjórnarskrárnefnd 2013 hefur gert frá stofnun sinni, er ólöglegt.