20.10.2015 kl. 06:02

Skríll hefur lítið vit á frítíma

Fyrir fimm áratugum þótti sjálfsagt mál að vinna tíu til tólf tíma vinnudag sex daga vikunnar, sem gera rúmlega sjötíu tíma. Sjaldan var vinnuvikan styttri en sextíu tímar og tveim áratugum fyrr fór hún hæglega í átta tugi.

Á þessum tíma fannst fólki óþarfi að eiga örbylgjuofna, sjónvarpstæki, tvo bíla fyrir þrjá í heimili, glæný gólfefni, nýstroknar og fokdýrar innréttingar hvað þá heldur að líta á rándýrar utanlandsferðir sem lífsnauðsynlegan standard millistéttar- og lágstéttarfjölskyldu.

Á þeim tíma þótti sjálfsagt að annað foreldrið væri heimavinnandi meðan börn væru alin upp og dugandi fjölskyldur endurnýttu, betrumbættu, samansettu og unnu með það hráefni, og hlutadýrð sem í boði var. 

Á þeim tíma var unnið úr sambandshnökrum frekar en að endurnýja með gólfefnahraða og sjálfsagt þótti að iðka samræður og tómstundir með börnum eða hreinlega taka þau með til starfa.

Ekki var ósjaldan að fólk ræddi saman um árekstra og misskilning frekar en að tuða úr sér ósættinu með hurðaskellum og látum, tilfinningafeluleik, eða að sturta pirringnum yfir innihaldslausa netsmfélagsþræði.

Þá þótti „þú ert fáviti“ vera duglaus rök í skoðanaskiptum.

Fólk kunni að bíta á jaxlinn þegar á bjátaði, axlaði sínar pligtir, beit á jaxlinn - eða bölvaði í hljóði - og vann úr sínum örlögum eins og vit eða vægi gaf tilefni til. Á þeim tíma þótti það göfga sálina að lesa bókvit í gegnum bókstafi á pappír frekar en að glotta eins og skinhelgur fáviti við sýndargleði sjálfshúmor-flissandi útvarpsmanna.

Í þá tíð kunni fólk að slökkva á imbanum - eftir að hann kom á sjónsviðið - og það kunni að hreyfa á sér skrokkinn án þess að þurfa fyrsta að kaupa sér aðgangsmiða til þess og það kunni að spila eða ræða saman frekar en að fara saman í bíó og kalla það samveru.

Þetta var fólk sem skildi að kynjakvóti átti jafn vel við á verkstæðum og togurum sem fundaherbergjum spilltra stjórna og spariklæddra nefnda.

Á þeim tíma þurftu börn ekki lyf við misheppnuðu uppeldi sjálfsréttlætingapakks. Ekki þurfti stafla af greiningum til að flokka vanlíðan fólks inn í lyfjaflokka. Ekki þurfti að fara silkihönskum um allar melódramatískar geðsveiflur tilfinningafíbbla og fólki alla jafna leið vel. Eða taldi sér trú um það.

Slíkt fólk kunni að nota frítíma sjálfu sér til uppbyggingar og bæði vildi leggja og lagði af mörkum til samfélags síns í trú á hið góða í öðrum - án skilyrðinga - og vildi sjá framtíð sem kæmi öllum landsmönnum vel. Á þeim tíma var stundum mark takandi á stjórnmálafólki, en á þeim tíma var sjaldan talað um það hyski sem sálarselda lygamerði (samanber stjórnarskrárvarinn rétt þeirra til að ljúga).

Sjáðu nú til: Þó vinnuvikan yrði stytt í fimmtán tíma á viku, þá er tækniþekking okkar slík í dag, og valkostir tækja og tölvutækni slík, að við myndum samt hafa allt til alls og vera eins og menningarlaus afvelta sælusvín sem velta sér ofaná perlurnar sem kastað er til þeirra og ropa af sjálfsbyrgingshætti.

Fyrir fjórum til fimm áratugum fundu fjölskyldur sér tíma til að eyða saman. Skíði og tjald var til á hverju heimili. Fólk notaði fríin sín til að ferðast um landið sitt og yfirleitt var til allt sem fólk þurfti á að halda sjálfu sér til bæði framdráttar og afþreyingar.

Á þeim tíma var ekkert minna til skiptanna en nú er, jafnvel meira ef eitthvað er, en nú skrimtir fólk í velmeguninni þó allir verði að vinna úti. Auðvitað er janfrétti til náms og starfa sjálfsagður hlutur, en að neyðast til þess að láta misvitra skólastarfsmenn ala upp börnin sín því nauðsynlegt er að hafa tvær eða fleiri fyrirvinnur, þrátt fyrir þann yfirburðalúxus sem við höfum; þá er eitthvað í ólagi.

Ég veit ekki hvað er í ólagi, en sá upplýsti, ofmenntaði og ofdekraði, skríll sem býr þetta land sem eitt sinn tilheyrði Íslenzkum; hefur ekki lesið stjórnarskrána sína, hefur ekki hugmynd um hvað lygaplaggið frá 2012 merkti, skilur ekki að skráin ætti að vera tvíhliða samningur, fattar ekki merkingu þess er þegar elítan skýtur þegna sinna auk annars ofbeldis; sá skríll skilur ekki vægi sinnar eigin menningar né mennsku.

Slíkur skríll er gólemskur Umskiptingur, býr yfir heilaþveginni stjarfdáleiddri hugsun, gjörsneyddur ímyndunargáfu enda beintengdur við rafskjái sem ræna hann lifandi hugsun, og kann ekki að nota aukinn frítíma sjálfum sér til gagns eða menningu sinni og samfélagi til framdráttar. 

Bezt væri, held ég, að þrengja kost þessa skríls enn frekar og lengja vinnuvikuna og gera honum rafskjáina enn aðgengilegri.

Þetta er auðvitað meint mjög jákvætt og vonandi tókst mér, með því að útþynna textann lítillega, að sneyða hjá því að særa viðkvæmar tilfinningar.