18.10.2015 kl. 23:20
Menningarlausir umskiptingar
Ef réttlæta þarf í Íslenskum fjölmiðli sögu Leifs Eiríkssonar eftir að Ofurbófi í Voðatúni varpar fram - að venju - þeim þvættingi sem honum sýnist, er fokið í flest skjól. Hér er engin Íslenzk menning lengur og óvíst að verði á ný.
Leifur Eiríksson Rauða var Íslenzkur. Það er allt og sumt.
Dalalæðu hefur orðið vart sunnarlega í sveitinni og vænta má sudda þegar líða tekur á nóttu. Heimtur hafa góðar verið af fjalli þetta misserið og bændur frekar vongóðir, sérstaklega sé miðað við óvenjumikinn - og með öllu órannsakaðan - fjárdauða síðasta vor.
Vel gengur að tuttla túristakýrnar sem endranær en þó þykir sumum fjárfrekum ferðabændum að illa gangi að innheimta skrefaskattinn. Helst er talið að um sé að kenna lélegum gæðum skrefamæla sem fluttir voru inn frá Austur Asíu til að hafa á ökklaböndum erlendra kúa.
Fleira er ekki í fréttum, nema jú: Verkalýðsforystan hefur ákveðið, í fjarveru hugsandi verkafólks, að nauðsynlegt sé að hækka verðlag með því að krefjast launahækkana. Enginn man lengur hver Benjamín H. J. Eiríksson var, en heyrst hefur að hann hafi verið trúmaður mikill með áhuga á hagfræði.
Að lokum skal bent á að ekki er Íslenzkur Íslenskur nema Umskiptingur sé.