3.8.2015 kl. 21:27

guðblessielítuna

Í dag var Alþingi Þjóðveldis 2015 haldið í fyrsta sinn síðan Endurreist Þjóðveldi var stofnað sumarið 2013 með sömu aðferð og þegar það var fyrst stofnað - á sama degi - og árið 930. 

Skemmtilegur og gefandi dagur. Stjórnarskráin var rædd fram og aftur, aðallega því tveggja ára prufutími hennar var að renna út, og drepið var á hlutverki Lögsögumanns án endanlegrar niðurstöðu en í ríkjandi sátt.

Fyrr í dag rambaði ég inn á skyndibitastað sem selur Beikonborgara sem bragð er að. Varð mér á orði við afgreiðslumann að verðið á hammaranum hafði hækkað. Svaraði hann því jánkandi og benti mér á, eins og ekkert væri sjálfsagðara, að síðustu launahækkanir væru komnar út í verðið.

Þegar heim kom leit ég á mbl til að vitja frétta af viðburðum helgarinnar og rek í það augun að stelpur lömdu stelpu vegna skoðana hennar og varð ég dálítið hissa. Og þó.

Einnig sá ég áróðursfréttamynd um móðgun Nató við Íslenzka menningu með samþykki sálarseldrar elítu Lýgveldisins og einnig rak ég augun í að elítan fegrar sig með því að senda ráðherra sína í hliðgæslu.

Ég hef um þetta allt saman helling að segja. En það er ekki þess vert að koma orðum að því.

Nýlega sá ég athugasemd frá einum af börnum lýgveldisins sem heldur því fram að ég, persónulega, kenni Valdstjórninni um allar ófarir mínar. Sem er athyglisvert, því annaðhvort er drengurinn ólæs eða les bara fyrirsagnir, eða hlustar á þungarokk þegar hann hlustar á efni frá mér, eða lyfjaskammturinn er vanstilltur.

Framangreint er algengt á okkar tímum, meðal lýðs sem heldur að hann sé upplýstur vegna mælanlegrar setu á skólabekk. Eins og margir vita þá er ógæfa mín sú að ég neita að halda kjafti og samsama mig drullunni sem gýs út úr Umskiptingi menningar okkar í hvert sinn sem hún rifar á sér túlann.

En það er ekki þess vert að koma frekari orðum að því. Íslenzkir skilja áður en ritað er og Umskiptingurinn heldur að stafrófskunnátta sé viska.