13.10.2020 kl. 13:25

Hvers vegna vilja sósíalistar nýja stjórnarskrá?

Hversu margir landsmanna hafa lesið þær fjórar breytingar sem nú eru fyrirhugaðar á stjórnarskrá "Lýðveldisins 1944?" Hver er ástæðan fyrir þessum breytingum og hverjir skilgreindu ástæðuna, eða kröfugreininguna, og hvernig er lausnin við kröfunni valin og mótuð?

Hreppstjórafélagið* er reyndar að tryggja sig með því að skilgreina hversu margar undirskriftir þurfi til að forseti megi neita að samþykkja lög. Sem sýnir enn betur samtryggingu elítunnar en jafnframt hversu lítinn skilning fólk hefur á stjórnarskránni, og því hlutverki sem hún gegnir sem sáttmáli.

Að tryggja sig enn betur - og gelda embætti sem aldrei hefur komið fram ógelt - er samt dálítið fyndið, því Íslendingar eru vel tamdir og að félaginu steðjar engin ógn.

Guðni Th. viðurkenndi sjálfur í sumar, að hann skilur ekki eða hefur ekki lesið stjórnarskrá Lýðveldisins, þegar hann fullyrti í opinberum kappræðum að skilgreina þurfi hlutverk forsetans betur. Stjórnarskráin skilgreinir þetta hlutverk fullkomlega og Sturla Jónsson sýndi fram á sumarið 2016 að þeirri skilgreingu hefur verið slælega framfylgt. Guðmundur Franklín sýndi það aftur núna sumarið 2020.

Hér má bæta við að Guðni hélt því einnig fram að utanþingsstjórnin 1942 til 1944 hefði verið eina utanþingsstjórn Lýðveldisins, sem sannar fyrir mér hversu óhæfur hann er sem forseti. Ég geri ekki lesandanum þá smán að útskýra firringuna.

Fleiri hafa lagt þung lóð á þessar vogarskálar og umræðan um hvað sé ríkissmiðja, hugveita, vald og valdmótun er ekki til á landinu í dag. Fullyrði ég að hún hafi einungis verið til sumrin 920-930, 1250-1264, 1660-1662 og 1809-1810.

Sósíalistar eru nú að halda því fram að 60% fólks vilji nýja stjórnarskrá. Enginn hefur þó sýnt fram á: Hvers vegna þarf nýja stjórnarskrá, hvað sú gamla skemmi og hvað ný myndi laga. Ekkert þessa fólks getur sýnt fram á hvernig maður greinir stjórnlagabrot, hvar og hvernig slíkt er kært, né heldur hvernig skuli refsa fyrir slíkt

Ekki einn greinandi hefur sýnt fram á lög frá Alþingi Lýðveldisins sem brjóta stjórnarskrána og þannig minnt á að þú þarft ekki að hlýða slíkum lögum. Engin ábyrg hugveita starfar að greiningu á þeim mikilvægu hugtökum sem sáttmálinn frá 1944 byggist á. Þó er fjöldi laga sem eru þannig ólögleg og í stífum skilningi má fullyrða að engin reglugerð ráðherra myndi standast dóm, sem merkir að lagalega má efast um hvort þér ber að hlýða reglugerðum.

Við erum fáein á landinum, sem teljumst til jaðarfólks, sem grúskum talsvert í þessum málum og tjáum okkur þegar stjórnarskráin kemst í fjölmiðla.

Ekkert okkar fær viðtöl, ekkert okkar fær að koma að umræðuborðinu. Öll reynum við að hafa athugasemdir okkar málefnalegar og hlutbundnar og öll höfum við sýnt fram á að meirihluti fólks hefur hvorki áhuga á þessum málaflokki né skilning.

Hvers vegna liggur svo mjög á að breyta grundvallar sáttmála þjóðarinnar, sérstaklega þegar enginn getur greint og útskýrt hvers vegna það sé svo áríðandi, ennfremur þegar nær enginn hefur skilning á efninu né áhuga?

Ég átta mig á að það er stór fullyrðing - og dálítið móðgandi - að slengja því á lesandann að hann hafi ekki skilning á efninu; Lesendur mínir vita þó að það er aðeins málefnaleg feitletrun. Því ítreka ég spurningarnar þrjár í fjórðu málsgrein sjöundu efnisgreinar.

Bæta má við bómullarprófi; Hvað sagði Páll heitinn Skúlason heimspekiprófessor (sem var mikill áhugamaður um málefnið) um siðferðisinngang eða frumspekigrundvöll að stjórnarskrá, og hvers vegna lögðum við Þjóðveldismenn mikla áherslu á þann þátt í okkar stjórnarskrá og hófum enn eina umræðu um slíkt í sumar?

Vitanlega veit lesandinn að Þjóðveldið á ekki upp á pallborðið hér en ef þú þekkir ekki eigin stjórnarskrá og ekki sagnfræði annarra stjórnarskrár heimsins (sem við Þjóðveldisfólk rannsökuðum í tengslum við gerð okkar eigin) og ef þú þekkir ekki að í landinu eru núna tvö lagalega gild ríki eða ríkissáttmála hins ríkisins; Hvað veistu þá um það sem núna er í gangi?

Ríki er holdgerving hugarástands þess hóps sem að ríkinu standa, bæði elítunnar og almúgans. Einungis tveir heimspekingar hafa greint þetta, Hegel og Hreinberg, þó fullyrðir snillíngurinn David Starkey að Edmund Burke hafi einnig greint þetta. Með öðrum orðum; Ríki er frumspekileg hugmynd. Ef maðurinn - sem einstaklingur eða hópur - hefur slæleg tök á greiningu hugmyndarinnar, hefur hann ekkert vald yfir henni.

Lokaspurningar; Hversu margar atrennur hafa sósíalistar gert að stjórnarskrá "Lýðveldisins 1944" á síðasta áratug? Hvers vegna er þeim svo í mun að sækja það mál? Hver græðir á því? Hvernig yrðu þeir stöðvaðir ef þeim gengur vont eitt til? Hvernig myndum við greina og skera úr um hvort þeim gengur gott eða vont til?

Hversu margar spurningar og hversu margar fullyrðingar eru í þessari færslu?

 

* Orðið hreppstjórafélag er hugtak sem ég hef mikið notað í orðræðu minni síðustu árin og tengist greiningum sem ég hef útskýrt ítarlega í myndskeiðum en það teygir sig aftur til elleftu aldar.