2.4.2015 kl. 01:07
Spyr sá glópur sem ekki veit
Ég verð óvenju stuttorður. Eins og margir vita hef ég síðustu ár sjálfmenntað mig í stjórnarskrám og þvíumlíku moði. Ég segi moði því þó orðið sé fínt og markmið þess háleitt, virðist mér að Lýgveldi - og önnur veldi - taki lítið mark á trúarjátningum sínum.
Áður en lengra er haldið þá skal bent á að g'ið er ekki ritvillupúki.
Það sat lengi í mér hvers vegna stjórnarskrá - siðferðissáttmálinn á milli þjóðar og valdakerfis - eyddi svo miklu púðri í Forsetann sem alla jafna virðist bara skrautfjöður.
Þar til ég sá ljósið. Lengi vissi ég að umræðan - sem er ekki samræða - um 26. greinina er bara froðusnakk til að leiða huga almennings frá einhverju öðru. Aðeins framar í skjalinu er hið raunverulega vald falið: skipun embættismanna.
Það tók smátíma fyrir þessi frjókorn að spíra og þó ég telji mig vita svarið, er ég opinn fyrir ábendingum: Hvaðan rís vald forsetans, hvert er varnarþing ríkiskerfisins, hvernig er það kært fyrir brot á sáttmálanum, og hvernig skal dæmt í kærunni?