3.5.2014 kl. 02:51

Fjöregg trölla

Til forna var kennt að fólk sem fangað væri af tröllum þyrfti að kunna tvennt. Annars vegar þyrfti að lesa tröllið. Það væri gert þannig að bæði væri því gert til þægðar en um leið þyrfti að vera vakandi fyrir venjum þess. Hitt var að finna og farga fjöreggi þess.

Það er ekki auðvelt að gera framangreint en þegar annað þrýtur má lokka tröllið út í sólina og breytist þá í stein. 

Tröllum finnst afar gaman þegar þeim er sagt frá þessu og eiga þá til að engjast um af hlátri. Það er fátt sem kætir meira en hlæjandi tröll. Sérstaklega þegar tvö eða fleiri fara saman. Er þá gott að hafa varann á sér, því þeim er hætt við að slá þér á bak þegar þau gleyma sér í kátínu, og það verkjar undan því.

Leyndardómurinn við að gera tröllum til þægðar er mun dýpri en ætla mætti í fyrstu. Það var háttur manna í gegnum aldir að nota trölla- og draugasögur til að hræða börn til hlýðni. Helst gætti þessa hjá fólki sem ekki trúði sjálft að tröll væru til né hafði til þess ímyndunarafl og kjark til að umgangast þau. Hvað þá heldur að það gæti með neikvæðni sinni kveðið niður drauga.

Þetta vekur tröllum ætíð hlátur því þau eru barnelsk mjög og þeim finnst afar fyndið - fáránleikans vegna - að einhver sé hræddur við tröll, hvað þá að tröllasögur séu notaðar til að hræða. Ennfremur vita allir sem tröll þekkja að fjöreggin hafa ekkert að gera með líf trölls né heldur að sólarljósið geri þau steinrunnin.

Þá er þeim ljóst sem umgangast tröll að þau hafa stórt og viðkvæmt hjarta.

Þau hafa einkar gaman af að láta sig renna saman við umhverfið í eins konar felubúningi. Oft hefur fólk gengið um þar sem tröll stendur eða situr og telur það vera hól eða steindranga. Auðvelt er að ganga úr skugga um þetta og er tæknin einföld. Ekki fá þó allir að sjá tröll, enda þau viðkæm fyrir köldu og þröngsýnu hjarta, en þeir sem til trölla leita fá ætíð að nema hlýju þeirra.

Fjöregg trölla er kristall sem þau nota sín á milli þegar þau eru að rýna í tröllagaldra.

Fjöreggin eru smíðuð úr samruna tröllatárs og útfellingar á graníti og tekur oft áratugi að forma hvert egg og aldir að láta það vaxa. Hvert fjöregg safnar í sig því andrúmslofti og sögum sem eiga viðkomu við það og nota má fjöregg í mörgum tilgangi s.s. við heilun, sagnagerð, sagnageymd, galdur ýmis konar og fleira sem ekki á erindi hér.

Tröll elska ennfremur að sitja í sólbjörtum brekkum og hlusta á angan náttúrunnar eins og þeim einum er lagið. Oft þegar sólin kemur upp detta þau í rogastans af aðdáun fegurðar gagnvart náttúrunni og gleyma þá oft að leika sér að eða stríða þröngsýnu og trúlausu mannfólki. Til er mannfólk sem skilur þetta og sest þá niður hjá trölli og nýtur kyrrðar með því.

Fátt er ljúfara í kyrrð fjallanna en að njóta fagurs útsýnis með trölli. Hver veit nema maður fái sögu að launum, jafnvel sögu fjöreggs. Stöku sinnum, að sumri, fær maður að sjá hina einstöku sýn þegar tröll ríkur til og forðar kind frá að hnjóta og fótbrjóta sig. Margir menn - og konur - í gegnum sögu aldanna hafa átt trölli líf að launa á fjalli en enginn trúað.

Ekki er öllum auðvelt að lesa sögu fjallanna með reisn andans.