19.1.2020 kl. 15:52

Fóðrun á tilfinningagreind og vitundarverkfræði

Þegar ég smellti á tengilinn fyrir tengda frétt – sem er í raunninni stutt grein – átti ég von á lista yfir þekkt fólk sem skildi við ýmsar aðstæður. Eins og allt fólk, hef ég gaman af kjaftasögum um frægt fólk, þó ég hati að viðurkenna það. Sumt af því sem lýst er í greininni kannaðist ég við úr eigin lífi, enda hef ég átt mín misgóðu sambönd eins og aðrir, og margt kannaðist ég við úr lífi vina og kunningja í gegnum árin. Vafalaust geta flestir lesendur tekið undir.

Eins og með allt í lífinu þá könnumst við aftur við aðstæður og ákvarðanir sem annað fólk tekur á lífsferlinum og oft jánkum við eða kinnkum kolli yfir hlutum einungis vegna þess að setning eða orðasamband vekur eitthvað sem við könnumst við, og við jánkum á ný.

Fljótlega hringir síminn eða við snúum frá lestrinum að einhverju öðru. Fara út með hundinn, vaska upp, líta á Facebook, kannski er einhver búinn að pósta þar frétt eða athugasemd sem grípur athyglina, heimilismeðlimur þarf athygli. Áður en við vitum af er greinin sem við lásum gleymd og jánkuðum þar sumu og vorum óviss með eitthvað annað.

Þar sem við stöldruðum ekki við hverja lýsingu eða orðasamband og spurðum sjálf okkur gagnrýninna spurninga, áttuðum við okkur ekki á því að hugsanlega var verið að spila á tilfinningagreind okkar. Enda sjaldgæft að við sjáum ástæðu til að velta því fyrir okkur.

Það er engin samsæriskenning að fjölmiðlar og menntakerfi er notað til að hafa áhrif á hvernig við hugsum, hvaða heimsmynd við mótum okkur (eða hvaða heimssýn sú mynd er grundvölluð á). Skiptir þar engu hvort um sé að ræða afstaða í stjórnmálum eða í andlegum málum og tilfinningamálum.

Alls kyns stefnur og klúbbar eru þekktir í þessu sambandi. Tavistock stofnunin í Bretlandi er e.t.v. minnst þekkt í þessum geira en hún er þekkt fyrir að vera þrjár lagskiptingar frá þeim sem spilað er á því hún iðkar að hafa áhrif á aðra klúbba s.s. Fabian Society eða Rand Corporation og marga aðra, jafnvel á hún og hefur átt þekkta einstaklinga sem hafa haft mikil og djúp áhrif. Þessir tveir síðarnefndu eru vel þekktir og aðferðir þeirra (og fólk sem þeir nota) eru engin leyndarmál.

Margir kannast við hugtak á borð við Frankfurt skólann, sem byrjaði sem sérstök stofnun til að vinna að róttækum samfélagsbreytingum (radical social change) en síðar varð nafnið lýsing á vissri heimspekistefnu og aðferðafræði sem fólk með ákveðna heimssýn beitir.

Lítið er rætt um Frímúrara í þessu sambandi en þeir og ýmsir klúbbar sem þeir hafa stofnað í gegnum aldirnar hafa – að mínu mati – náð lengst í að þróa aðferðir Þjóðfélags- og Samfélagsverkfræði og er í rauninni hugtakið samfélagsverkfræði of takmarkandi hugtak til að gera þeim nein skil og Meitlun mun betra.

Með þessu er á engan hátt ætlun mín að gera lítið úr samfélagsverkfræði (social engineering) þó ég tali stundum og skrifi  að ætla mætti að ég hafi einhvers konar fyrirlitningu á slíku – það er bara feitletrun þegar maður talar með vissum þótta eða í vandlætingu.

Allir sem láta frá sér einhverja skoðun og leggja á borð fyrir aðra, hvort heldur heima í eldhúsi, í bloggheimum eða á hvaða vettvangi sem er, iðka þá göfugu verkfræði að reyna að móta huga annars fólks. Þessi færsla er að sjálfsögðu undantekningin sem sannar regluna.

Ég veit að fólk sem hefur tileinkað sér aðra heimsmynd en þá sem ráðandi sósíalismi vinnur að og styður er löngu búið að átta sig á hvers vegna ég tengi þessa hugleiðingu við tengda grein. Fólk sem setur sig inn í mismunandi heimsmyndir sér svona hluti úr órafjarlægð en þó með stigsmun.

Ég hef sjálfur velt þessum hlutum fyrir mér í um það bil þrjá áratugi og farið djúpt í þessi fræði en þó er aðeins rétt um það bil ár síðan ég áttaði mig á því að sama heimssýnin getur getið af sér mismunandi heimsmyndir. Sýn er frumspekilegt fyrirbæri en þegar unnið er með hana og henni beitt getur hún tekið á sig ýmsar myndir.

Til að einfalda þessa staðhæfingu er nóg að líta á tvær heimssýnir, annars vegar Húmanisma og hins vegar Kristíanisma. Sósíalismi, Sósíal-demókrat og Kommúnismi eru allt áþreifanlegar myndir byggðar á sömu sýninni. Kaþólska, Lúterska evangelíska (þjóðkirkjan), Kalvínismi, Orþódox, eru allt heimsmyndir byggðar á sömu heimssýninni.

Svona mætti lengi telja en ég hef lengi haldið því fram að núverandi heimsástand (síðustu 5780 árin) stjórnist af sjö heimssýnum og að þær kvíslast í tuttuguogeina heimssmynd, og byggi ég þá greiningu á útskýringum úr Biblíunni.

Það er engin samsæriskenning að fólk sem aðhyllist einhverja heimssýn taki höndum saman eða stilli strengi sína til að viðhalda einhvers konar vitundarverkfræði til að hafa áhrif á aðra, hvort heldur til að sinn hópur (eða samfélag) vaxi eða sem vörn gegn öðrum hópum eða bara vegna þess að maður hefur gaman af því.

Það er hins vegar ákveðin vandlæting sem vaknar þegar maður sér fólk beita verkfræði á hóp undir því yfirskyni að veriða sé að segja hlutlægt (í hlutlausu formi) frá einhverju sem í rauninni er huglægur þrýstingur og djúpsálarfræði. Ég leyfi mér því að koma með sambærilega grein og sú tengda en frá öðrum sjónarhóli – en allar myndir þurfa ljóssíu og sjónarhorn.

Í þessu samhengi vil ég minna á að þegar ég vinn með mína eigin vitund þræði ég hana í fimm þætti; Andlega, Líkamlega, Rökhyggju, Tilfnningalega og Óvitund (Jungean Unconscious). Þróun þess líkans hef ég vanlega útskýrt í YouTube eintölum mínum og ég hef heyrt utanað mér að fólk sem hefur lært þetta líkan er að ná jákvæðum tökum á eigin vitundarþróun.

Annað sjónarhorn á tengda grein

Karlmaður áttaði sig á því að hann vildi frekar skilnað við konu sína en að fara með henni í ráðgjöf, hann ákvað þó að leggja á sig erfiða ráðgjöf og nokkrum mánuðum síðar höfðu þau ekki aðeins slípast saman að nýju heldur enduruppgötvað fleti á ást sem þau óraði ekki fyrir áður.

Karlmaður sem ekki hafði átt kynlíf með konu sinni í hálft ár, skipulagði rómantíska helgi með konu sinni og fann þar að öll löngun hans í kynlíf með henni var horfin. Hann ákvað að játa það fyrir henni en um leið leggja í hennar hendur hvað þau gerðu í því, hún ákvað að vinna með honum í að finna út hvernig þau gætu endurvakið kynlíf sitt og í dag lítur hann til baka og segir „ég hefði átt að gera þetta tíu árum fyrr.“

Maður nokkur var orðinn þreyttur því hvers vegna kona hans treysti honum ekki, hún skoðaði símann hans, skoðaði Facebook síðuna hans, spæjaði um tölvupóstinn hans, hafði áhyggjur af því hverja hann hitti og talaði við eða um hvað. Hann bauð henni út að borða eitt kvöld og ræddi þetta við hana all ítarlega, þar til hún sá að hún var að grafa undan sambandi þeirra og ákvað að leita sér aðstoðar við að vinna úr öryggisleysi sínu. Samband þeirra varð smámsaman fyrirmynd margra í samfélagi þeirra fyrir lífsgleði, traust og jafnvægi.

Kona nokkur viðurkenndi fyrir manni sínum að hún hafði haldið framhjá honum í nokkra mánuði með vinnufélaga sínum. Hans fyrsta hugsun var „sambandið er búið“ en áttaði sig á að hann væri þá að refsa henni fyrir hreinskilni sína og spurði hana „er sambandið okkar þá búið“ og svarið kom honum á óvart. Það tók hana tíma að ljúka flækjunni og það tók þau þrjú ár að vinna úr þeim tilfinningum sem komu upp og samband þeirra varð eftir það sterkara en áður. Þegar hann var spurður hvað hafði hjálpað honum í gegnum þetta tímabil, svaraði hann: „Ég sagði við sjálfan mig og hana að hún mætti sofa hjá hverjum sem hún vildi hvenær sem hún vildi, að hún ætti sig sjálf og að samband okkar væri stærra og dýpra en sjálfsfróun.“

Karlmaður hafði vitað um skeið að hann væri ekki ástfanginn af eiginkonu sinni. Þau áttu börn og þeim gekk vel og samband þeirra var áfallalítið, þau voru frekar samhent og rifust sjaldan. Þegar hún tilkynnti honum að hún vildi skilnað fann hann að hann var sama sinnis. Hann stakk hins vegar upp á því að þau myndu fresta því í eitt ár og setja sér það markmið að eiga eina helgi í mánuði annaðhvort í helgarferð erlendis eða dagsferð innanlands. Ári síðar var gagnkvæm ást þeirra endurvakin og í dag, mörgum árum síðar, eyða þau miklum tíma með barnabörnum.

Karlmaður var vitni að því að konan hans daðraði við annan mann á samkomu þar sem þau voru stödd, hans fyrsta hugsun var að hann vildi skilnað en þegar hann hugsaði málið dýpra viðurkenndi hann aðra djarfari hugsun; Það kom honum til sú fantasía að horfa á þau fara alla leið og hann viðurkenndi það fyrir konu sinni. Í dag lifa þau í traustu sambandi og óþarfi er að fara dýpra ofan í hvernig þau hafa þróað það.

Hjón voru barnlaus og konan vildi breyta því, hann var smámsaman að komast að raun um að hann vildi síður eyða tíma sínum í barneignir og var að íhuga að biðja um skilnað. Þegar hann hugsaði málið enn dýpra áttaði hann sig á að til væri lausn á þessu og sagði konu sinni að hann vildi finna sér aðra konu og halda þeim báðum. Eftir nokkurra vikna umhugsun samþykkti hún þetta fyrirkomulag og síðar hitti hann konu sem var einnig til í þetta. Þegar þær fóru að eignast börn tók þær höndum saman um hið tvöfalda heimilislíf og hvöttu hann til að gera hluti sem gerðu hann hamingjusaman og smámsaman styrktu hann inn á þær brautir sem gerðu þeim öllum kleift að lifa við góða afkomu sem þau öll nutu góðs af.

Karlmaður áttaði sig á því þegar góður vinur hans var í skilnaðarferli að hann öfundaði hann og að hann hafði lengi langað til að skilja við sína konu. Þegar hann ræddi þetta við sama vin sinn í þeirri von að finna þar styrk til að taka skrefið, spurði vinur hans hann að því hvort hann vildi skilja við konuna sem hann byggi með eða konuna í henni sem hann kynntist fyrst. Eftir smá umhugsun áttaði hann sig á því að hann hafði ekki verið henni andlegur og tilfinningalegur leiðtogi og ákvað að leita sér ráðgjafar um hvernig hann gæti leyst úr því. Hann sá að konan hans var að orðin visnað blóm og spurði sjálfan sig hvort þau bæði myndu fá meira út úr því að hjálpa henni að blómstra aftur.

Maður nokkur áttaði sig á því að hann laðaðist að annarri konu og túlkaði það þannig að hann hlyti því að vera hættur að laðast að konu sinni. Þegar hann ræddi þetta við konu sína og bjóst við að þau myndu hætta saman, stakk hún uppá því að þau myndu bjóða hinni konunni út að borða og sjá hvort þau öll þrjú hefðu gaman af að leika sér saman. Kom honum ekki aðeins á óvart að finna nýja sálarfleti á sjálfum sér og henni heldur einnig að hægt væri að þróa þá saman á ýmsa vegu.

Hjón nokkur kynntust ung og eignuðust börn saman, þegar yngsta barnið flutti að heiman var nánd sambandsins löngu kulnuð og sambúðin – sem þó var áfallalaus – löngu orðin vani. Þegar þau ræddu málið ákváðu þau að fara óvenjulega leið og búa saman sem vinir í eitt ár og að bæði mættu þau á því  ári fara á stefnumót með öðru fólki og jafnvel stofna til annarra sambanda, en að árinu loknu myndu þau endurmeta stöðuna. Komust þau að því að þetta ár sem þau lifðu saman sem vinir án væntinga frá hinu, höfðu þau kynnst upp á nýtt og ástin vaknað og styrkst.

Karlmaður áttaði sig á því að hann vildi skilnað við konu sína sem var mikið frá vegna vinnu, bæði vann hún langa vinnudaga og fór reglulega á ráðstefnur á vegum vinnustaðar síns. Hann áttaði sig á því að bæði var um að ræða minnimáttarkennd gagnvart starfi konu hans og eins það að þegar hún var í fríi var hugur hennar í raun aldrei frá vinnu og því höfðu þau fátt sameiginlegt. Hann tók upp á því að lesa sér til um fag hennar og verða samræðufær um starf hennar, að fara ávallt með henni þegar hún fór í burtu (ef hægt var). Hann ræddi við hana um þá sambandskulnun sem hann var að upplifa og hún samþykkti – þó hún væri þreytt um helgar – að eyða reglubundið degi í útivist með ferðaklúbbum. Smámsaman vaknaði aftur ást og ástríða sambandsins hjá þeim báðum og þau bæði gerðu breytingar á vinnu sinni til að geta sett sambandið í fyrsta sæti og börnum þeirra fór að ganga mjög vel.

Karlmaður áttaði sig á því eitt sinn þegar hann og kona hans voru úti að borða – sem þau gerðu reglulega – að hann var löngu hættur að hlusta á hluti sem hún talaði um og að hún sýndi takmarkaðan áhuga á því sem hann talaði um. Hann fann þó að sér þótti vænt um hana og vissi að það væri endurgoldið. Hann ákvað að spyrja hana hvort henni liði svipað og þegar hún jánkaði því, hvort þau væru í sambandskulnun og hvort þau væru kannski löng skilin í hjarta sínu. Hún jánkaði þessu einnig. Hún einnig sagði honum að hún væri byrjuð að horfa á aðra karlmenn og undirbúa sig í huganum. Síðar þá um helgina fékk hann djarfa hugmynd, en hann hafði lengi haft í leyni áhuga á BDSM klúbbi (en vinur hans var virkur í slíku). Hún samþykkti djörfu hugmyndina og fáeinum vikum síðar var samband þeirra algjörlega endurnýjað.

Karlmaður sem hafði upplifað stöðnun og tilfinningalega depurð árum saman hafði eftir aðstoð sérfræðings fundið sér nýja nálgun á sjálfan sig, bæði hvernig hann umgekkst tilfinningalíf sitt og þróaði sínar daglegu venjur. Smámsaman breyttust mörg viðhorf hans en kona hans sýndi þessum hlutum engan áhuga og virtist oft sakna gömlu útgáfunnar af honum. Hann ákvað að lesa sér vandlega til um slíkar aðstæður, með áherslu á lausnir frekar en skilnað, og ræddi við fólk og sérfræðinga til að fá hugmyndir. Smám saman fann hann út hvernig hann gat verið konu sinni andlegur og tilfinningalegur leiðtogi til þess að þau gætu bæði fengið út úr sambandi sínu það sem nærði þau.

Karlmaður áttaði sig á því að hann hafði lengi alið á vaxandi gremju og andúð í garð konu sinnar, engu skipti hvaða skoðanir hún hafði, hann fann því allt til vansa. Ef hún kom með tillögur í hans garð, fór hann í hina áttina eins og af hvöt frekar en yfirvegun. Hið eina í hennar nálgun á lífið sem ekki pirraði hann, var uppeldið á börnum þeirra og ýmsir grunnþættir í hvernig heimili þeirra var skipulagt. Eftir samræður við lífsreyndan vinnufélaga sinn áttaði hann sig á því að hugsanlega var hann búinn að móðurgera konu sína og væri að yfirvarpa (Projection) á hana einhverjum dýpri tilfinningum eða ætlunum sem hann hefði gott af að gera upp við sig. Hann fór að ráðum vinar síns og tók tíu mínútur á hverju kvöldi að færa dagbók – sem ófrávíkjanleg regla – og ritvarði ritvinnsluskjalið í tölvunni sinni og smámsaman leyfði hann hverju sem var að flæða í dagbókina. Þessi vinna sýndi honum, en það tók hann marga mánuði, að sjá og skilja dýptina í þessum heilræðum og byrja að sjá konu sína aftur.

Karlmaður nokkur áttaði sig á því að eina leiðin til að fá skilnað við tengdaforeldra sína væri að skilja við konuna sína. Stundum er sagt að allar konur muni líkjast mæðrum sínum með tímanum og að þær velji menn sem á einhvern átt minni á föður sinn. Oft er svipað sagt um karla einnig og Freud nefndi þetta Ödipusduld – þó þetta sé fráleit mýta sem hefur enga vísindalega stoð, þá trúa þessu margir. Maðurinn áttaði sig á því að hugsanlega væri vandinn sá að hann leyfði tengdaforeldrum sínum að vera ráðandi í hans eigin sambandi og hann ræddi þetta við tendaföður sinn sem hjálpaði honum að leysa hnútana og verða leiðandi í eigin fjölskyldu. Hann breytti veikleika sínum í styrk og löngu síðar sá hann hvernig þessi tengsl hans við tengdaforeldrana voru honum til blessunar á fleiri vegu

Að endingu

Þá fjóra áratugi sem ég hef lifað sem fulltíða maður hef ég kynnst aragrúa fólks bæði hérlendis og í þrem Evrópulöndum sem ég hef dvalið langdvölum í. Ég hef umgengist fólk sem hefur tileinkað sér mismunandi afbrigði af trúarlegum og trúlausum heimsmyndum, hef sjálfur átt í ýmsum samböndum bæði góðum og slæmum og horft upp á sambönd vinafólks.

Þó hér sé viss umritun á frásögn tengdrar greinar þá er umritunin ekki einber skáldskapur heldur styrkt af reynslusögum sem ég þekki til að séu réttar. Af öllu því sem ég hef séð og lært, er það staðreynd að þegar fólk notar eigin innri hindranir til að spyrja sig vandaðra spurninga og hefur hugrekki til að rekja svörin út fyrir ramman á opinskáan hátt og án þess að sýna öðrum óviringu né leyfa öðrum að lítilsvirða sig, opnast oft gáttir í vitund sem áður hefði ekki verið trúað að væru til.

Auðvitað vita margir lesendur að ég á fortíð og að ég hef misstígið mig á lífsleiðinni, glöggir lesendur vita hins vegar að þegar ég tók mitt stærsta vansaspor tók ég þá ákvörðun að gera allt líf mitt opinbert frá þeim degi og rýnishæft og hef staðið við það.

Hverjum sem vill er frjálst að gagnrýna þann hluta af sálarlífi mínu sem opinberaðist – sjálfum mér að óvörum – fyrir meir en áratug en sá sem ákveður að það endurspegli hver ég er í dag, er fáviti sem ekki hefur leyfi mitt til að lesa þessa greinargerð né önnur skrif mín.

Aðrir átta sig á að þessi hörðu orð eru einungis feitletrun.

Ég var dæmdur eins og ég væri síbrotamaður, þó var sannað úr tveim áttum að ég hafði aldrei áður beitt ofbeldi né hef ég gert síðan. Ég nefni þetta sem ábendingu til fólks sem heldur að vansaspor – þó stórt sé – leyfi manni ekki að tjá sig um sambönd og tilfinningar. Ég minni á að bestu forvarnafulltrúar í áfengismálum er fólk sem á persónuleg reynsluspor af hinni neikvæðu hlið áfengisnotkunar.

Oft þegar vinafólk ræðir við mig um sambandavandamál – sem gerist oftar en ég sjálfur kæri mig um – eru yfirleitt fyrstu viðbrögð mín að segja við þá „yfirgefðu kerlinguna, farðu erlendis að vinna í smá tíma og finndu sjálfan þig.“

Ávallt er svar þessa fólks á þá leið að vilja leysa vandamálið í samböndum sínum, jafnvel þó þau séu komin á þann punkt að langa mest til að skilja við maka sinn. Yfirleitt finnur fólk leið til að endurvinna sambönd sín og heila þau. Biblían ráðleggur mönnum að gerast konum sínum leiðtogar (en ekki stjórnendur) og konum að virkja menn sína til að verða leiðtogar sínir ef þeir hafa ekki styrk eða innsæi til þess.

Lesandi minn veit jafn vel og ég að margir samfélagsverkfræðingar hafa misnotað Biblíuna til að leggja fólki strangari lífsreglur um hvernig lifa skuli lífinu en í mínum huga eru öll andleg rit ætluð fólki til andlegrar og tilfinningalegrar leiðbeiningar og til umhugsunar. Ef við getum ekki lesið andleg rit vegna þess hvernig stjórnsamt fólk hefur misnotað þau, þá eigum við verkfræðina skilið.

Þjóðfélagsverkfræðingar vita og hafa vitað í þúsundir ára að besta leiðin til að gera róttæka uppskurði á samfélögum og gera huga fólks meðfærilega og jafnvel stjarfa er að meitla fjölskylduheildina. Óþarft er að málalengja þetta frekar.

Guðsblessun
ps. Afsakið að ég notaði orðið fáviti – það var bara feitletrun.