14.11.2019 kl. 15:51

Af íslenskum hottentottum og réttsýnum skessum

Ég hef ekki hugmynd um hvort Samherji var eða er sekur um spillingu í Namibíu og satt að segja nenni ekki að setja mig inn í það. Enda er það málefni Namibíska ríkisins hvort lög þar séu brotin eða ekki.

Ég veit hins vegar að mörg Afríkuríki virka þannig að þú getur ekkert gert þar nema vera tilbúinn í það sem Kínverjar kalla að "smyrja lófana" og Maó kallaði að "liðka tannhjólin." Eins og maðurinn sagði, þegar þú ert í Róm þarftu [stundum] að gera eins og Rómverjar.

Ég hef oft séð lófasmurningar og tannhjólaliðkanir gerast hér á Íslandi og ég hef séð marga síðustu ár reyna að opna fyrir umræður um slíkt án árangurs.

Margir sáu myndina Sumarlandið og aðrir lásu samnefnda bók og enn aðrir hafa hlustað á (eða lesið) Varðmenn kvótans. Hvergi er nein umfjöllun á Íslenska menningarsvæðinu um þau mál sem þar eru krufin.

Í þó nokkur ár hefur undarlegur draugur verið á ferð hérlendis; Stjórnmálin vinstra megin eru sannfærð um að breyta þurfi Stjórnarskránni frá 1944, án þess að hafa nokkru sinni sýnt fram á hvers vegna það sé nauðsynlegt.

Nú er yfirstandandi þriðja aðgerðin á tíu árum til að knýja fram breytingar á Stjórnarskránni, hvað sem tautar og raular, enn sem fyrr án málefnalegrar umræðu meðal þjóðarinnar. Ég hef í þessu samhengi spurt margt fólk eftirfarandi þriggja spurninga um stjórnarskrá:

1) Hvernig skilgreinirðu stjórnarskrárbrot? 2) Hvar og hvernig (og hvern) kærirðu fyrir stjórnarskrárbrot? 3) Hvernig ber að refsa fyrir stjórnarskrárbrot? Ég spurði Umboðsmann Alþingis þessara spurninga snemma árs 2014 og fékk loðin svör, tveim árum síðar spurði ég hann aftur og fékk ég þá málamyndasvör eða kattarklór.

Sumarið 2016 breytti Sturla Jónsson forsetakosningum á Íslandi til frambúðar. Í þeim kosningum fékk hann furðulítið af atkvæðum miðað við að hann sannaði ítrekað fyrir alþjóð (í fjölda viðtala) að allir forsetar (og allir flokkar ásamt Alþingi) hafa þverbrotið Stjórnarskrána frá upphafi Lýðveldisins.

Hvort næstu eða þarnæstu forsetakosningar muni endurspegla þessa öflugu uppljóstrun, það mun tíminn leiða í ljós en mér er til efs að ég sé sá eini sem skilur vægi þess sem Sturla gerði sumarið 2016 og það kæmi mér ekki á óvart að skilvirkir aðilar undirbúi sig undir umræður framtíðar.

Þegar kommúnistar (og sósíalískir meðbræður þeirra) klára að knýja fram breytingar á stjórnarskrá - sem almenningur sannanlega skilur ekki - þá munu þeir fá vald til að breyta stjórnkerfinu þvers og kruss eins og þeim sýnist. Í dag hafa þeir hindrun, í stjórnarskránni sjálfri, en reynt var sumarið 2013 að ryðja henni úr vegi en mistókst.

Sú aðgerð - sem ég hef ítarlega gert grein fyrir annarsstaðar - gerði allt Lýðveldið ólöglegt í hartnær þrjú ár.

Þrátt fyrir ítarlegar útskýringar var ljóst að fáir skildu hvað átt var við, enginn var tilbúinn til að ræða það, ekki einu sinni til að sýna öðrum fram á að greiningin væri röng.

Þeir kommúnistar sem minnst er á hafa sýnt síðustu ár að þeim er ekkert heilagt og eru fullkomlega siðlausir. Þeir lögðu niður Seðlabankann til að koma þar að sínu fólki (og stjórna honum enn). Þeir lögðu niður öll ráðuneyti til að endurhanna þau eftir sínu sniðmáti án þess að neinn benti á (eða skildi) hvað væri að gerast.

Þeir breyttu kosningum í ráðgefandi skoðanakannanir og sýndu þar í verki algjöra fyrirlitningu á lýðræði.

Þeir tóku einnig yfir allt fjármagnskerfið, hirtu allar eignir af fjórðungi þjóðarinnar og skelltu skuldinni á örfáa bankamenn sem höfðu í raun farið eftir lögum og hafa síðan sýnt fram á fyrir erlendum dómstólum að þeir voru í raun dregnir fyrir Stalínsk sýndarréttarhöld hér heima. Þessir sömu aðilar krefjast þess í dag að geta handstýrt stjórnmálamönnum í valdi Siðanefndar.

Engir Íslendingar voguðu sér að greina þetta samsæri; hvað þá að fara ofaní hvernig ríkið fitnaði og fitnaði, einkavina-nefndir fengu aukin völd, og jaðarfyrirtæki og félagsleg fyrirtæki eignuðust gríðarleg auðæfi þrjár lagskiptingar frá undirskrift hvers pappírs.

Allan tímann voru sósíalískir fjölmiðlar duglegir að benda okkur á hin og þessi Blámannalönd eða kapítalísk samsæri; allt saman óhlutgerðar hugmyndir sem taka skyldi sem hina og þessa sannleika (eða samleika).

Fáir áttuðu sig á því hvorki fyrir hrun né síðar að Keynesian hagfræðingar sem aðhyllast Trotský Marxisma voru starfandi í öllum greiningar- og ráðgjafadeildum sem beinlínis öttu bönkum og öðrum fjármagnsstofnunum út á heljarbrún sem þeim var (mín kenning) síðan hrint fram af.

Ég hef ítrekað varað við því síðustu ár að þessi sama kommúnista (og eða sósíalista) mafía er að gefa Ísland til UNESCO og það er sannanlegt. Þegar ferlið klárast að rífa hálendið af þeim sveitarfélögum sem um aldir hafa farið með málefni þess í skjóli hefða og fornra laga og breyta í UNESCO þjóðgarð, verður 62% af landinu komið undir vald þessarar þverþjóðlegu stofnunar í París og það er rekjanlegt.

Stór flæmi eru þegar komin þangað m.a. Reykjanesið allt.

Nú er t.d. hafið UNESCO ferli hérlendis til að koma völdum höfnum í sama farveg og ekki er langt síðan að yfirmenn hjá þeirri stofnun í París skömmuðu Íslenska Lýðveldið fyrir umgengni sína á Unesco Þingvöllum, ásamt ábendingum um fleiri "eignir" Unesco hérlendis.

Engin umfjöllun er um þessa spillingu hér heima á Íslandi nema hjá mér og að hluta í samstarfi við Axel Pétur Axelsson, en við erum ekki marktækir; Ég er trúarlegur kverúlant með áhuga á Þjóðveldinu og hann greinir samsæriskenningar.

Auk þess að ég er dæmdur glæpamaður og því hlýtur allt sem ég segi og skrifa að vera rangt.

Gott og vel, hér er því [röng] samsæriskenning: Einu aðilarnir sem eru nógu fjársterkir til að standa í vegi fyrir (eða fjármagna pólitísk öfl til að sporna við) endanlegri yfirtöku á Íslandi, eru sjávarútvegsfyrirtækin.

Nú er verið að sannfæra þjóðina um að Samherji sé eitt af verstu mannvonskufyrirtækjum Sovéska Unesco-Íslands: Því þeir stóðu í viðskiptum í Namibíu og eitthvað í þeim viðskiptum þykir vafasamt. Allir vinstri fjölmiðlar eins og þeir leggja sig taka samtímis á þessu með risastórum fyrirsögnum og áhugaverðum fyrirtökum.

Meira að segja ofurkommúnistinn Eva Joly - sem fáir utan Íslands taka mark á í dag - hefur lagst á sveifina. Al-Jazeera beitir samskonar aðferð og Reykjavík Media gerði á sínum tíma til að bregða fæti fyrir Sigmund Davíð, að sigla undir fölsku flaggi og koma með djarfar yfirlýsingar og hártoganir til að sannfæra almenning um "einhverja túlkun" og það virkar.

Við vitum að kommúnistar eru búnir að sigra. Þeir eiga fjármagnskerfið, pólitíkin hefur lagst við fætur þeirra, almenningur lætur hræra upp í sér, og feitríkið (sem sumir kalla djúpríkið) hefur njörvað allt sem hönd á festir undir risastórt reglugerðarfjall sem enginn kemst yfir, ekki einu sinni fuglinn fljúgandi.

Tökum dæmi: Sjálfstæð stofnun getur rústað fyrirtæki þínu ef hún ákveður að það ögri óhlutgerðu (abstract) hugtaki sem heitir samkeppni. Ef þú áfrýjar til nefndar og nefndin dæmir þér í vil, þá getur stofnunin dregið þig fyrir dómstóla og rústað þér með þeirri aðferð.

Nú vilja örfáir hugaðir stjórnmálamenn draga beittustu vígtennurnar úr stofnuninni. Enginn bendir á að sjálfstæða stofnanakerfið (með dóms-, sektar-, og refsivaldi) er brot á stjórnarskrá.

Nema hvað? Stofnunin sker upp herör gegn stjórnmálamönnunum og krefst þess að viðhalda ægivaldi sínu og sjálfstæði. Glöggir lesendur og skarpir rýnendur vita að hér er á ferðinni eitt lítið dæmi um það hvernig stofnanir feitríkisins hafa dregið sér dómsvald og sektarvald sem í dag tröllríður Búkollu svo jafnvel Karlsson á engin ráð til, ekki einu sinni hár úr hala kýrinnar getur hjálpað honum.

Engin umfjöllun er um það á Íslandi hvernig sú hugarfarslega spilling sem hér er lauslega drepið á, hefur brotið fjöregg Íslenskrar þjóðar.

Einn kommúnisti lýsti því yfir í þessari viku að rétt væri að taka allar útgerðirnar og fara ofaní saumana á þeim. Þegar það verður gert, hverfur síðasta aflið á Íslandi sem getur rönd við reist á þeirri yfirtöku og viðbjóðslegu endurforritun sem nú fer fram á landi og þjóð.

Ég segi viðbjóðslegu því innan við níu prósent þjóðarinnar skilur hvað hér er útskýrt en þeir hinir sömu vinna að þessum málum. Níu prósent er byggt á túlkun vissra skoðanakannana.

Þessi litli kommúnistahópur er ákveðinn í að hann viti hvað er menningu okkar fyrir bestu, hvaða nefndir eigi að fara með völdin, hvaða undirnefndir eigi að túlka sannleikann og restin af þjóðinni (þrátt fyrir gríðarlega menntun eða kannsi vegna hennar) áttar sig ekki á hvaða darraðardans er raunverulega í gangi.

Auðvitað viljum við ekki mútur en það er auðvelt að ræða um mútur í einhverju landi hinumegin á hnettinum og dæma fólk í fjölmiðlum á grundvelli útúrsnúninga og gróusagna (anecdotal) sem "allir vita að séu réttar." Rétt eins og í klausturmálinu svonefnda:

Enginn þeirra sem hafa fullyrt við mig hvað hafi verið sagt á Klausturbar hefur hlustað á upptökuna, né getað svarað hvers vegna þrjár ríkisstofnanir komu í veg fyrir rannsókn á "njósninni".

Að lokum vil ég útskýra tvö hugtök sem ég nota ítrekað og benda í leiðinni á að Marx skilgreindi að sósíalisminn væri leiðin til kommúnismans. Hann tók ekki fram hvort fólk þyrfti endilega að vera í flokkum sem hétu sósíaldemókrat eða kommmúnistaflokkar.

Um er að ræða heimssýn sem stuðlar að mótun heimsmyndar. Sumir hafa tileinkað sér heimssýn kommúnismans og aðrir hafa tileinkað sér heimssýn sósíalismans, oft án þess að gera sér grein fyrir heildarmyndinni. Með orðinu heimssýn þá er bent á að á bak við heimsmynd eru ýmis frumspekileg (metaphysical) gildi sem (oft) gefa ómeðvitaða fyllingu.

Þegar fólk aðhyllist heimssýn þá skilur það og á auðvelt með samstarf við fólk í öðrum samfélags- eða stjórnmálahópum sem tileinkar sér samskonar frumspekileg gildi, oft ómeðvitað. Heimspekingar hafa greint þessa ferla all ítarlega, en þegar fólk með samhljóma heimssýn (abstract) tekur höndum saman smíðar það heimsmynd (concrete) og þarf ekki samsæri til.

Ég nefni þetta síðastnefnda því mér hefur lærst að þegar fólk skilur þessa rótfestu þá sér það betur hvað átt er við þegar sagt er að hérlendis sé enginn hægriflokkur lengur. Miðjuflokkurinn er t.d. Sósíaldemókrat, rétt eins og Sjálfstæðisflokkur, Samfylking, Framsókn, Flokkur Fólksins, Píratar, VG og restin af hópnum.

Hægri hliðin er ekki bara tóm, hún hefur gleymt hugtökum sínum og tapað getunni til að takast á með hugtökum og skilgreiningum. Íhaldið er dautt og sósíalisminn er að skila restinni í fang kommúnismans meðan almenningur veltir sér upp úr fullyrðingum um Kalaharílandið í Afríku en skilur ekki eigin stjórnarskrá.

Eins og allir vita eftir umfjöllun síðustu daga; Eina íslenska spillingin eru nokkrir aflóga kapítalistar að féfletta varnarlaust þjóðríki einhversstaðar langt í burtu. Að halda öðru fram, það er bara samsæriskenning.