7.11.2019 kl. 12:10
Rafræn skráning og aðgengi allra mis merkilegra upplýsinga
Í síðunum "Mitt Ísland" rak ég nýlega augun í að til er skrá yfir alla bíla sem ég hef átt, sjálfur gæti ég ekki talið upp helminginn af þeim og 90% þeirra hafa löngu farið í pressuna.
Þrisvar hóf ég nám í kvöldskóla árin 2000 til 2005 til að bæta við mig en þar sem ég vann að meðaltali 150% vinnu á þessum tíma varð ekkert úr því að ég tæki lokaprófin. Þó lærði ég sjálfum mér til gagns, eftir því sem mér vannst tími til að sinna náminu.
Í sömu síðum er tekið fram að ég hafi þrisvar skráð mig í skóla og mistekist eða fallið. Líklega mun það skila sér í rafrænum ferlum hingað og þangað hverskonar lúði ég er í námi.
Hvergi kemur fram í þessum síðum að tvívegis vann ég bók um venslaða gagnagrunna með styrkjum frá Menntamálaráðuneytinu og tvívegis hélt ég námskeið fyrir tölvunarfræðinga sem þurftu að skerpa tök sín á Hlutbundinni forritun, og voru nemendur ánægðir.
Mér finnst fullkomlega eðlilegt að Ungmennafélögin fari fram á að sjálfboðaliðar og starfsmenn sem koma að ungliðastarfi þurfi að framvísa sakavottorði. Hins vegar má spyrja sig tveggja spurninga.
1. Hversu stór hópur fólks í landinu hefur komist í kast við lögin á ýmsum sviðum en síðan tekið sig á og hefur eftir það unnið þrekvirki í ungliðastarfi hverskonar, til að styrkja ungt fólk til félagslegs þroska og lífs án vímu og ofbeldis? Kemur slíkt fram í sakaskrá?
2. Hversu eðlilegt er að hinir og þessir fái aðgang að ræfrænum gagnaskrám s.s. á borð við Sakaskrá?
Loks vil ég nota tækifærið til smá áróðurs, sem hefur verið virkur undirtónn í öllum mínum skrifum síðasta árið: Ég var alinn upp á tímum Sovétríkjanna og því kennt hversu slæm þau voru. Ég er hins vegar grúskari og ég grúskaði á eigin spýtur í því hvernig þau voru skipulögð.
Ég fullyrði að vesturlönd eru orðin verri en Sovétríkin létu sig dreyma um að verða en því miður eru bæði almenningur og elítan ómeðvituð um það. Við búum í ríkjasambandi mis-sósíalískra ríkja sem halda að þau séu hinn eini sanni og réttmæti veruleiki.
Öll þessi ríki hafa reist menntakerfi sem jöfnum höndum er notað til sósíalískrar innprentunar og steinrunninnar samhljóms hvatningar. Sívaxandi hópur fólks í öllum þessum löndum er að vara við, daglega og ítrekað, að heimsmenning hins stafræna sósíalisma og pólitískrar rétthugsunar er að hruni kominn.
Auðvitað er þetta síðastnefnda einungis túlkunaratriði, það breytir þó ekki þeirri staðreynd að ef við spyrjum ekki alvarlegra spurninga um þá heimsmynd sem við vorum alin upp við og aðhyllumst svo til sjálfkrafa, þá munum við ekki eiga til yfirveguð svör þegar og ef spádómurinn rætist, og lesandinn veit hvaða afleiðingar það getur haft.