19.7.2018 kl. 00:34
Tvískemmt í hjómrunn raundónans
Síðustu árin hefur heilmikill vitnisburður verið fram borinn af hálfu okkar Þjóðveldisfólks um þær blekkingar sem forfeður núverandi elítu Lýgveldisins beittu Íslenzka þjóð í tengslum við svokallað sjálfstæði frá Dönum.
Þó viðbrögðin séu þögul hjá landsmönnum, þá bæði lesa þeir og hugsa.
Fyrst þegar ég sá allar þær fréttir fjölmiðla síðasta sólarhringinn af þeirri sýndarmennsku sem fram fór á Þingvöllum, hugsaði ég með mér, nóg hefur ritað verið, óþarfi að bæta þar við. Þá bættust við fleiri fyrirsagnir, með viðaukum um Pírata og Dani.
Eitt veit ég um meginfjölmiðla og vafalaust vita það fleiri, að fyrirsagnir eru hannaðar til að grípa, dáleiða, og villa hugsandi fólki sýn. Það merkir ekki að fréttirnar séu allar uppdiktaðar en best er að lesa þær allar neðan frá og upp og leggja saman fáeina punkta, líta að lokum um öxl.
Sjálfstæðið frá Dönum var í raun hannað árin 1853 til 1874. Var sjálfstæðið bein afleiðing af sjálfstæðu ríki sem stofnað var 1809 og ólöglega fellt af Bretum. Stjórnarskráin sem undirbúin var 1918 og löggilt 1920 var í raun sú sama og tók gildi 1874. Samningurinn frá vorinu 1918 tók fram að honum mætti rifta einhliða - af bæði Dönum og Íslandsdönum - að 25 árum liðnum eða 1944.
Kosningin sem fram fór í maí 1944 snérist aldrei um sjálfstæði frá Dönum, en þó trúir lýðurinn því enn þó elítuþjóðin viti betur.
Allir sem eitthvað vita um ævistarf Sigmundar Freud og Carls G. Jung, vita að þó yfirvitund neiti að viðurkenna eitthvað þá býr það í undirvitund (Subconscious) og klárlega í dulvitund eða óvitund (Unconscious). Einnig er vitað að það sem býr í hinum myrku djúpum sálar, það stýrir hegðan okkar, svo er einnig um þjóðarvitund eða þjóðarsál.
Þeir sem fylgst hafa með orðræðu minni á YouTube síðustu mánuði vita vel að í mars/apríl 2018 var Þjóðin dæmd til 42 mánaða útlegðar af hálfu Landsvætta. Einnig að ef dómur sá hefði ekki verið fram borinn, að útlegðin hefði orðið til 42 ára.
Þetta skynjar þjóðin, því mætir hún ekki á sumarbústaðalóðirnar og túristagelminn sem oft nefnist Þingvellir, sem var helgasti staður Íslendinga og er enn helgasti staður Þjóðveldis. Sá staður er nú undir yfirráðum Unesco, og um þessar mundir er þeirri Parísarstofnun fært hálft landið að gjöf.
Eina leiðin til að fá kulnaða og dofna þjóðarsálina til að líta við þeim sorglega farsa sem nú fór fram á Þingvöllum er að skella fram nokkrum fréttabútum með fyrirsögnum um einhvern orðaþvætting sem skiptir jafn litlu máli og sá hroði sem nefnist Lýðveldið frá 1944 en ég uppnefni skammarlaust Lýgveldið.