18.7.2018 kl. 21:09
Að greina Þjóðarkulnun
Á milli tanna ýmissa rándyra s.s. krókódíla og hákarla, lifa ýmis smærri dýr sem sjá um að hreinsa burtu afganga og halda tönnum og tannholdi hreinu. Þekkt er að allar hvalategundir hafa ýmis sníkjudýr á skrokknum sem hreinsa húðina.
Samband hýsils (Host) og sníkjudýrs (Parasite) er alþekkt í náttúrunni.
Þetta nefnist Samlíf en á ensku Symbiosis og er dýrmætt nema þegar það snýst upp í andhverfu sína. Þegar sníkjudýrið heldur að það sé hýsillinn og meðhöndlar hýsilinn sem sníkjudýr, þá hefst dauðaferli beggja og ef ekki kemur til lækning, er dauði beggja óumflýjanlegur.
Eitt merki þess að Bjúrókratíska sníkjudýrið (Parasite) hafi breytt sér í hýsil og umsnúið Þjóðfélaginu (og jafnvel samfélaginu einnig) í sníkil, er þegar gjaldheimturöskun sníkjudýrsins og reglugerðafíkn missir alla sjálfsstjórn.
Annað merki er þegar þjóðfélagið hættir að framleiða á grundvelli skapandi framleiðni og hugvitsamlegra viðskipta en reiðir sig á gjaldheimtur og rifrildi um bitlinga. Engum ætti að dyljast t.d. hvernig stjórnmálin (sem eru vottuð af bjúrókratinu) hafa síðustu ár snúist aðallega um stækkandi flækjustig nýrra gjaldheimtuliða.
Á meðan fitnar sníkillinn umfram öll eðlileg mörk, en utanumhald fyrir þjóðfélag hrörnar innan frá.
Þriðja sjúkdómseinkenni er þegar sníkjudýrið fer að beita samfélagið sjálft auknu ofbeldi en fjórða einkenni er þegar meðlimir samfélagsins eru orðnir ýmist of daufir og vonlitlir (eða nöldursamir) til að bregðast við eða hættir að sjá sjúkdómseinkennin og taka þeim frekar sem sjálfsögðum hlut.