24.12.2017 kl. 14:13

Hin metafýsiska upphæð

Allir vita að í hinu Kabbalíska tré lífsins eru tíu punktar. Tja, margir vita það. Ennfremur vita þeir sem leggja stund á semíólógíu (Táknafræði) að tákn skipta máli, ekki bara til að dáleiða fólk, æsa það eða sefa, heldur einnig sem dulskilaboð fyrir ýmis leynifélög.

Fyrir þá sem ekki eru þessu sammála, leitið annað, en fyrir hina sem eru efins en tilbúnir að íhuga, bendi ég á "Name of the Rose" og "Foucault‘s Pendulum" eftir Umberto Eco. Eins og allir vita sem eitthvað skilja, þá var hann einn fremsti fræðimaður heimsins í Semíólógíu og dulkóðaði mikið af þekkingu sinni og skilningi í bækur sínar.

Þeir sem hafa þetta á hreinu, eru líklega vel lesnir mystíkerar sem einnig hafa áttað sig á því að framangreind dulkóðun snérist um að kenna aðferðina frekar en að útlista fræðin.

Síðustu þrjú árin hef ég sjálfur dulkóðað heilmikið efni í ensku myndskeiðin mín. Ýmsir hérlendingar og fjarlendingar hafa fylgt þeirri rás og ýmsir þeirra lært að rýna sjálfir í mistrið. Eins og margir vita skrifaði ég grein í Morgunblaðið fyrir rétt rúmu ári síðan, um Trúarofsóknir hinna trúlausu.

Margir lásu greinina og fékk ég ýmsar athugasemdir, sú sem ég man best er þegar mér var sagt að nafntogaður útvarpsmaður hefði fjallað um hana daginn sem hún birtist. Eitt af því sem mystíkerar hafa tekið eftir er að þegar hið augljósa er sagt, þó fáir taki undir, þá læðist það um kjallara samvitundar okkar og opnar gáttir þar sem áður voru glufur.

Leonard heitinn Cohen orti ljóð sem mér þykir kært en hann nefndi það Anthem. Í ljóðinu kemur fyrir setningin "There‘s a crack in everything, that‘s how the light gets in" en eins og margir vita var Leonard mikill og djúpur mystíker sem kafaði djúpt í hin kyrru vötn.

Í ár bar lítið á téðum trúarofsóknum nú fyrir jólin miðað við síðustu áratugi og er það vel.

Iðulega greindi ég frá því í fyrra á Íslenzku rásinni minni að hér á landi séu fleiri en tvö ríki. Flest fólk heldur að einungis sé hér Lýðveldið frá 1944 en hér er einnig Þjóðveldið frá 930 sem var endurreist sumarið 2013 en hér er einnig Kirkjuríki sem er undir hernámi Lýðveldisins og búast má við að fleiri ríki séu sem sum séu óskilgreind en önnur í leyniklúbbum. 

Ástæðan fyrir að ég vakti athygli á þessu er aðallega tvíþætt; Annars vegar að viðhalda þeirri áminningu handa steinrunnum hugum að ríki er ekki náttúrulegt fyrirbæri heldur hugmynd sem birtist í réttu hlutfalli við fjölda þeirra sem trúa á hugmyndina, sem er ekki hið sama og að trúa hugmyndinni. Hins vegar að benda á að Húmanisminn er í lítt dulbúnu stríði gegn Kristismanum og að báðir ismar iðka viðhald og rekstur ríkis.

Í fyrravetur og fram á sumar varði ég talsverðum tíma í að rekja sögu og eðli húmanismans og þá ekki síst út frá þeim heimspekingum sem eru eins konar kirkjufeður þeirrar heimssýnar. Þá benti ég á að eitt af vandamálum húmanismans - sem ráðið hefur meira og minna þjóðríkjunum frá tímabili Westphalia samninganna og er þótt ótrúlegt megi virðast grunnsettur af Ricelieu Kardínála - er að hann skortir andlegan eða mystískan veruleika.

Um líkt skeið benti ég á að ýmsar tilraunir eru gerðar innan húmanismans til að bæta úr þessu síðarnefnda. Ég þekki ekki allar þessar tilraunir en ein sú áhugaverðasta er ævistarf fræðimannsins Jordan Peterson sem er iðinn við að skapa kreddu (Dogma) með samsuðu úr akademískri kristinfræði, Júngískri sálarfræði og Húmanískum bókmenntum. 

Þú getur ekki sett hið andlega undir mæliker en húmanismi getur aðeins notað heimssýn sem sé akademískt mælanleg. Það er eðli þessarar heimssýnar að tilbiðja hina mannlegu og rökvísi og að tigna hinn mælanlega og áþreifanlega veruleika. Á sama tíma neitar hann að horfast í augu við eðli okkar manna eða hvata til sjálfsblekkingar en sjálfsblekking og blóratilhneigin er (eitt) erfiðasta viðfangsefni mannsins.

Áhugaverð tilraun hjá Peterson en dæmd til að mistakast, þó mun starf hans blekkja marga næstu áratugina. Augljósasta táknið um að hann er verkfæri eru nöfnin hans.

Sem fyrr segir þá eru háðar margvíslegar orrustur og jafnvel styrjaldir í vitundarhöll mannkynsins. Yfirleitt huldar hugsýn hins almenna manns og einnig hinnnar mótuðu elítu. Þessir hlutir eru þó vel sýnilegir þeim sem rannsaka allar 360 gráður sjóndeildarinnar, sérstaklega ef þeir leyfa sjóndeildinni að ná upp í kúlu frekar en hring.

Stríðið gegn Kirkjuríkinu er lítt dulbúið og þeim sem fylgst hafa með rásum mínum augljóst. Til að mynda ætti engan að blekkja að fréttir af launahækkun biskupsins, þjóðhöfðingja þess, var vel tímasett, einmitt í mánuðinum sem nær öll þjóðin snýr sér að kirkjunni og hugleiðir boðskap hennar. 

Varðandi tengda frétt; Þá skiptir staðsetningin ekki öllu máli heldur umræðuefnið og tímasetningin.

Tré hefa merkingu í dulvitund okkar allra, sömuleiðis talan tíu hvort heldur við tengjum hana við Kabbalah eða eitthvað annað. Það er á hverju ári í hverju ríki til hópur sem amast við hinum og þessum opinberu ákvörðunum, jafnvel við opinberum jólatrjám, hið áhugaverða er hvaða þjóðfélagsverkfræðingar gera frétt úr því og hvernig þeir matbúa það fyrir skrílinn. 

Ekki er síst áhugavert þetta með peníngana! Það hefur verið eitt aðalverkfæri húmanismans að nota peníngafjárhæðir á margvíslegan hátt til að spila á tilfinningar fólks. Óþarfi er að rekja það nánar enda yrði þá póstur þessi tvöfalt lengri en orðið er og er þó þegar tvöfalt lengri en lagt var upp með.

Dugir að áminna að peníngar eru búnir til í þar til gerðum stofnunum; Þeir eru ímyndun og verðgildi þeirra í réttu hlutfalli við átrúnað.

Í morgun sá ég mun áhugarverðari fréttir en þá sem tengd er. Fréttir af fólki sem fer í garðana að minnast genginna vina og ástvina, fréttir af fólki sem hefur verið svo önnum kafið að undirbúa hátíð ljóss og friðarvonar eða í öðrum önnum að það reiðir sig á opnunartíma örfárra verslana rétt fyrir lokun í dag, aðfangadag. 

Ég var einu sinni í trúarsöfnuði sem ekki heldur uppá jólin vegna heiðins uppruna þeirra. Það er rétt, að við ættum að halda hátíðir okkar án blekkingar, en það breytir ekki hinu að við mannfólkið erum verur sem ekki skiljum til fulls hvers vegna við erum, hvaðan við komum, eða hvernig. Því þegar við lítum á náttúruna og það litla sem við fáum skilið um það kraftaverk sem lífið og tilveran er, þá sjáum við að við okkur er bæði eitthvað einstakt og einnig eitthvað miður. 

Þess vegna þykir mér vænt um jólin; Því þau minna mig á þetta allt saman, allt sem ég fæ ekki skilið en hleypir birtu, von og yl inn um glufurnar. Mér finnst að Þjóðfélagsverkfræðingar geti eins og við hin slakað aðeins á, rétt yfir blájólin.