3.11.2017 kl. 19:07
Af hnignandi menningu
Ég hef persónulega ekkert á móti því að konur séu andlegir þjónar innan trúarbragðanna, þ.e. séu prestar. Í árdaga Íslenzkrar menningar, eða fyrstu tvær aldirnar sem landið okkar var að byggjast, var algengt að konur væru hofgoðar og jafnvel goðar.
Í bók minni „Endurreist Þjóðveldi 2013“ lagði ég talsverðan þunga á að Íslenzk hugsun hefði ætíð gert kynjum jafn hátt undir höfði en á ólíka vegu og þar með benti á að hið svonefnda jafnrétti sem við þekkjum í dag sé útúrsnúningur frá náttúrulegu jafnvægi.
Enginn sem fylgst hefur með orðræðu minni um Eingyðistrúna og viðleitni minni til að endurreisa hana í hreinni og ómengaðri mynd fer varhluta af því hversu mikla virðingu ég ber fyrir Evu, fyrsta spámanni eingyðistrúarinnar og þeirri hneisu að minning hennar hefur verið svert af þeim trúarbrögðum sem þykjast vera eingyðistrúr en hafa allar breyst í skurðgoðadýrkun.
Fólk á oft erfitt með að hlutgera frumspekileg hugtök eða beita merkingarfræðilegri orðræðu þegar kemur að trú annars vegar og trúarbrögðum hins vegar. Fáir sjá að þetta tvennt eru andstæðir pólar (diametric opposites) í trúarlegri frumspeki. Sem aftur merkir að bæði þrífst á hinu því hringferill getur ekki verið hringur sé hann hálfur.
Það skal því engan undra í þessu ljósi að fólk skilur ekki að menning - sem er saga hugsunar - hvílir á nákvæmum skilningi frumspekilegra hugtaka og að ætli hún að vera sterk þarf hún að tileinka sér heilindi gagnvart þeim skilningi. Þó teljumst við betur menntuð og talsvert þróaðri en forfeður okkar.
Þó skildu forfeður okkar að eitt stærsta hnignunarmerki menningar er þegar fólk fer ekki eftir innihaldi trúar sinnar. Kristnar kirkjur eru unnvörpum að taka upp kvenpresta sem þó er harðbannað samkvæmt kristinni trú. Menning sem játar með munnhrokanum og hafnar í gjörðum sínum og neytendahyggju, hrynur innanfrá og breiðir svo yfir merkingarleysi sitt með því að skipta um kyn.
Þeir kristnu söfnuðir sem fara eftir kreddum sínum gera kynjum jafn hátt undir höfði en í náttúrulegu jafnvægi. Fyrir íhugula er óþarft að túlka þetta nánar, hinum eru skrif þessi ekki ætluð.