27.9.2017 kl. 03:25
Hvað er að gerast hjá okkur?
Fyrir rúmum fjórum árum hafði ég gaman af að henda inn einni og einni blogg-færslu. Stundum því ég vildi vekja athygli á einhverju sem ég var að gera við bókaskrifabrölt eða tjá mig um fréttir líðandi stundar.
Stundum vildi ég benda á eitthvað sem ég hafði verið að skrifa á öðru hvoru af vefsetrum mínum en ég er með eitt á ensku og annað á Íslensku (hreinberg.is og logostal.com). Stundum var ég líka að vekja athygli á Þjóðveldinu og gá hvort fleiri sérviskuhausar hefðu gaman af því brölti.
Síðustu þrjú árin hef ég verið hugfanginn af því tjáningarformi að gera spjall-myndskeið á Youtube, bæði á Íslensku og Ensku. Það er kannski aðal ástæðan fyrir að ég blogga orðið sjaldan hér og skrifa núorðið fáar nýjar greinar á vefsetrin mín tvö.
Þegar maður talar upphátt í myndskeiðum þá fær maður heilmikla útrás og vangaveltur og grúsk verður mun kraftmeira, oft dýpra, og endurgjöf frá áhugaverðu fólki er mun virkari.
Þessa dagana er ég með nýtt hugðarefni - Úlfahópinn - og því er spennandi að vekja öðru hvoru athygli á því hér en þar sem Úlfahópurinn snýst um samfélags- og stjórnmálarýni, þá liggur beint við að tengja sumar hugleiðingar við fréttir líðandi stundar.
Satt að segja er ég kominn á þann stað - aðallega vegna margra vangaveltna um vitund og sálarástand - að ég sé ekki lengur hvers vegna maður ætti að tjá sig um rýni hvers konar. Það er eins og Birtíngur hans Voltaire hafi smeygt teygjubandi í ökklana á mér og reglulega heyri ég óma „maður þarf að hugsa um garðinn sinn.“
Því þetta snýst jú allt um eigin vitund, eigin sálarástand og innra ferðalag, þar sem ytri heimur er aðeins spegill sem endurvarpar eigin skynvillum og sjálfs-tælingum. En samt! Hvar eru mörkin á því að hugsa um sjálfan sig eða um bróður sinn, eins og Kain sagði við Guð fyrir langa löngu. Hvað er synd?
Því sjáðu til, er einhver munur á þjóð minni og mér? Hvar erum við stödd í dag og hvað höfum við lært síðasta áratug, eða síðustu öld? Stundum er eins og samfélagsvitundin sé föst í limbói - hinu kaþólska við fordyr hreinsunareldsins - og stundum er eins og hún sé röflandi af sjálfsmóð við hengiflugið, en þegar maður rýnir í einstaklinginn sér maður endalaust litaskrúð og sögur sem birta leyndardóma sem taka skáldverkum langt fram að auðgi og blæ.
Franz Bieberkopf sagði í Berlin Alexanderplatz þáttunum; „Því meira sem ég lifi, því meira fyrirlít ég mannkynið, en elska einstaklinginn.“ Ég sá þættina þegar ég var tólf eða fjórtán ára en ég gleymi þeim aldrei, því þeir kenndu mér eitthvað um sjálfan mig, heiminn og þig, sem ég hef ekki enn skilið. Ég hef þó alltaf skilið þessa setningu hans Franz, en ég hef aldrei getað útskýrt hana.
Aðallega langaði mig til að tjá mig í kvöld. Ég sá þó enga frétt sem mér fannst athugasemda virði né heldur datt mér í hug neitt til að skrifa um. Þó fannst mér nauðsynlegt að skrifa og ákvað að gera eitthvað sem ég leyfi mér mjög sjaldan, að bera sálina hráa.
Góðar stundir.