9.2.2017 kl. 00:18

Blessun fylgi för þinni

Ég vil votta fjölskyldu Ólafar og vinum, samúð á sorgarstund. Ekki veit ég hvort fyrirsögn tengdrar fréttar séu orð að sönnu. Væri Ólöf enn á lífi hefði ég eytt púðrinu í að tæta fyrirsögnina niður. 

Það veit hver sá sem fylgst hefur með skrifum mínum hver skoðun mín er á stjórnmálaferli Ólafar en það hefur ekkert að gera með konuna sjálfa enda þekkti ég hana ekkert. Við sem tilheyrum alþýðunni - sem Thomas Paine nefndi "The Commoner" - sjáum ekki alltaf mun á hvort við fjöllum um opinberu persónuna eða manneskjuna á bak við persónuna.

Oft þegar við gagnrýnum hina opinberu, gleymum við okkur í hita og þunga dagsins. Stundum gleymist að taka fram hvora persónuna maður á við og stundum sjást í bloggi og athugasemdakerfum að almenningur sér ekki alltaf skýrt muninn.

Hannes Hafstein lét eitt sinn falla góð orð um fyrrum andstæðing í stjórnmálum sem þá var genginn feðrum sínum á braut. Var hann þá minntur á af vini að hann hafði oft uppnefnt þann sem minnst var með mjög niðrandi orðum. Svaraði þá Hafsteinn; sumt nær ekki yfir mörk grafar og dauða.

Ólöf barðist hetjulega við erfið veikindi og á sama tíma þjónaði hún Lýðveldinu dyggilega og þeirri þjóð sem á það trúir. Veitum henni góðar bænir í fararheill yfir hin dularfullu mörk efnisvitundar okkar sem við öll þurfum fyrr eða síðar að glíma við.