11.1.2017 kl. 18:51

Lýgveldi Uppvakninga handa Umskiptingum

Fyrirsögnin er sett fram í gríni. Hvernig er annað hægt en að fjalla um lýgveldis-elítuna og þegna hennnar nema í svartri hæðni? Því skal bregða betri fætinum á ritvöllinn og sparka tveim orðaboltum í hugarmarkið.

Sá fyrri er svona: Hversu margar kosningar hafa verið á Lýðveldistímanum og hversu margar ríkisstjórnir? Hversu umfangsmikil er spilling elítunnar og hversu djúpt ristir sú lýgi að hér ríki lýðræði? Ekki aðeins að elítan ljúgi heldur að þegnar hennar taka þátt með öflugri sjálfsblekkingu og nöldurblóra*.

Sá síðari er þessi: Í vetur hefur margt gerst hjá Endurreistu Þjóðveldi. Við höfum kosið fyrsta lögsögumann Þjóðveldis síðara og einnig kosið umsjónarmann - eða embættismann - Upplýsingastofnunar. Bæði embættin eru byggð á stjórnarskrá Endurreists Þjóðveldis frá 2013.

Þá er gleðiefni að tilkynna að í desember síðastliðnum var einróma kosinn mannréttindaviðauki við stjórnarskrá Þjóðveldis og er hann gildur frá kosningu sinni í desember síðastliðnum. Þess má geta, fyrir þá sem ekki vita nú þegar, að héraðsþing Þjóðveldis eru haldin ársfjórðungslega og allir borgarar þess hafa rétt á þingsetu í héraði.

Smámsaman fjölgar þeim sem átta sig á að ríkiskerfi er aðeins hugmynd og að hún holdgerist í réttu hlutfalli við fjölda þeirra sem trúa hugmyndinni. Ennfremur er fleirum ljóst en vilja viðurkenna að Íslenzka Þjóðveldið er eina lögmæta ríkiskerfi Íslenzkrar þjóðar á Íslenzku landi. 

Taktu eftir eðlismuni orðanna löglegt annars vegar og lögmætt hins vegar. Þó eitthvað telji sig löglegt (Legal) þá er ekki þar með sagt að það sé lögmætt (Lawful). Lögmætt er ávallt löglegt en ólögmætt getur aldrei verið löglegt þó það skýli sér á bak við löglegt orðagjálfur.

* Orðið Nöldurblóri er hugtak sem ég nota yfir orðræðu sem hérlendis er þjóðaríþrótt;

Með því að nöldra yfir einhverjum öðrum sem gera hitt og þetta telja nöldrarar sig sjálfa vera gull og gersemi. Blóraböggull eða blóri, er þegar þú kemst upp með að gera eitthvað í skjóli annars eða réttlætir eigin siðblindu með því að benda á siðleysi annarra. Þannig fyrra þegnar sig þeirri ábyrgð að vera virkir borgarar. Slíkir eiga lýgveldin skilið.

Nú gæti Uppvakningum þótt freistandi að spyrja hvort undirritaður sé ekki sekur um hið sama, að nöldra í sífellu, ár eftir ár, yfir ástandi lýgveldisins og elítu þess. Vissulega deili ég á hugarástand fjöldans og elítunnar; En ég tók þátt í ásamt öðrum að gera eitthað áhugavert í málinu. Margir telja mig vitgrannan fyrir, enda eru flestir uppteknir í nöldurblóra.