27.10.2014 kl. 14:22

Mótþrói afstöðulausrar reiði

Undanfarið hefur mikið borið á reiði fólks vegna þess að valdstjórnin er tilbúin að skjóta á þjóðina. Eða kannski undrun. Sem aftur minnir mann á orð Adolfs Hitler, að þó einstaklingar séu almennt vel greindir er múgurinn oftast tvívíður og grunnhygginn.

Hver sá sem fylgdist með veturinn 2008 til 2009 sá það í beinni sjónvarpsútsendingu að Valdstjórn er skítsama um almúgann svo fremi að hann borgi reikningana sína og kjósi rétt við kosningaborðið. Einnig sást glöggt að fjölmiðlar eru tilbúnir að stilla almúganum upp við þá ljóssíu að vesalings ofbeldisfólkið sem skrýðist einkennisbúningi valdsins séu bara venjulegt fólk að vinna vinnuna sína.

Ef rýnt er í það hvernig fjölmiðlar stilltu hinni svönefndu Búsáhaldabyltingu upp, þá var þetta nákvæmlega sú mynd sem þeir áttu að sjá sem heima sátu. Raunin var þó önnur. Vel flest það fólk sem streymdi niður í bæ var friðsemdar fólk sem veifaði spjöldum og lét heyra í sér en stöðvaði þá fáu reiðibolta sem vildu vaða í valdstjórnina með valdi.

Við vitum þetta öll en það þarf reglulega að minna á það því mafían sem moðar ofan í okkur spunanum vill afbaka þá sýn sem hin heiðarlega og friðsama þjóð okkar hefur tamið sér. Það er vilji valds að viðhalda valdi og valdi er ævinlega sama hvaða leiðir það fer. 

Ég á enn erfitt með að kyngja því þegar laganna verðir og þjónar samfélagsins sprautuðu pipar í augu heiðarlegs fólks sem mætt var á sinn eigin Austurvöll að mótmæla við þinghús sem í orði kveðnu tilheyrir því. Sama húsi og stolt sýnir skjaldarmerki erlends valds á táknrænan hátt á þaki sínu.

Stundum eru táknmyndir ekki augljósar en ef litið er upp frá spuna samtímans og rýnt í innihaldið og birtingarform þess þá sést glöggt hvaða sjöhöfða skrímsli situr með valdið í fanginu.

Það þarf engan að undra eftir að fulltrúar valdstjórnarinnar hálf drógu og hálf báru virta öldunga samfélagsins utan úr heilagri náttúrunni og beint í tukthúsið eins og ótýndum misyndismönnum að þessum krökkum í einkennsibúningi er skítsama um þau gildi sem þjóðin okkar hefur í heiðri. 

Ennfremur hefur árum saman verið dagljóst að dómstólakerfið stendur vörð um sama vald.

Sömu öldungar eru nú dæmdir glæpamenn fyrir að reyna að standa vörð um réttargæslu og virðingu fyrir lögum. Sömu dómstólar hafa ekki enn afgreitt kærur vegna síðustu kosninga, sem voru margar, en voru snöggir að afgreiða eina kæru vegna kosningar sem þeim hefur hugsanlega mislíkað.

Þetta sama vald vill því aðeins fá útlendinga hingað til að skoða heilaga náttúruna að hægt sé að plokka þá sem best og bara sýna þeim valda fossa í alfaraleið, enda of dýrt að byggja upp þjónustu og sæmilegt vegakerfi. 

Þá er dagljóst að valdakerfið, hvort heldur embættismenn, stjórnmálamenn, dómsmenn, laganna verðir eða efnahagselítan, hefur engan áhuga á því að svonefndur „Sérstakur saksóknari“ hreinsi til í spillingunni. Eini tilgangur þess embættis var að róa fólk niður og láta tímann líða meðan þjóðin gæfi kerfinu blóð sitt.

Vald er vald og það mun bæði spilla þeim sem ber það og einnig draga fram í dagsbirtuna eðli þess sem heldur á því. Margir hrópuðu haustið 2008 að við þyrftum að endurvekja gömul gildi. Kannski er það rétt en ég hef ekki séð lista yfir þessi gildi né heldur hvernig eigi að reisa þau.

Nú hefur litið ljós skýrsla sem sýnir svart á hvítu það sem öllu læsu og hugsandi fólki ætti að vera ljóst. Í það minnsta því fólki sem lesið hefur samfélagsfræði eða rýnt í sögu liðinna alda hérlendis og erlendis. Að fyrsta regla þeirra sem halda um valdið er að vita hver gerir hvað, hver tengist hverjum og hverjum þurfi helst að hafa gát á eða ýta frá jötunni, að síðustu hverjum þurfi að farga ef þörf krefur. 

Hver sá sem skoðað hefur slíka hluti veit hvernig skuggahliðar kerfisins vinna. Því er ég hissa á reiðiöldunni sem nú ríður yfir landið. Ekki að reiðin sé ný heldur að hún vaknar vegna þess að ljóst sé svart á hvítu að valdakerfið sé tilbúið í að beita líkamlegu valdi. Þetta hélt ég að allir vissu, en kannski er stundum erfittt að trúa framhjáhaldi maka þar til staðinn er að verki?  

Spuninn þegar þeir ögruðu veikum manni til að missa stjórn á skapi sínu og nýttu tækifærið til að sýna hversu langt þeir myndu ganga var ekkert annað en spuni til þess að sýna þjóðinni að þegar vélbyssurnar kæmu í ljós myndi þjóðin vita að þeim yrði beitt ef þörf kræfi.  

Íslendingar mega aldrei missa stjórn á skapi sínu. Reiðin sem bullsýður undir yfirborði okkar vel hugsandi þjóðar er ekki ný og ekki ástæðulaus. Framkoma valdsins við þjóð okkar síðustu ár er svo fortakslaus að siðað fólk á varla orð lengur. 

Við Íslendingar lærðum það veturinn 2008 til 2009 að múgsefjunar mótmæli skila engu. Þó hægri stjórnin færi frá og vinstri stjórn kæmi hennar í stað þá breyttist ekkert annað en að meðlimir sömu elítu settust í forsætið en hið raunverulega valdakerfi sem enginn fjölmiðill varpar ljósinu á heldur áfram að gera það sem vald ævinlega gerir.

Ég ritaði reglulegar greinar um Beint lýðræði veturinn 2012 til 2013. Ég nefndi þær hugleiðinar Endurreist Þjóðveldi og reyndi þar að skírskota til þess besta sem menning okkar hjúpar og jafnframt að segja fólki að til væru fleiri leiðir en að fylgja misvitrum spunum eða sigla um reiðiöldur.

Um sama leiti og ég lauk þessum skrifum og snéri mér að öðru ákvað valdakerfið að ég skyldi missa heimili mitt, ég sífra ekki örlög mín þar enda vissi ég að ég lék mér að eldinum og þá nýbúinn að skrifa bókina Varðmenn kvótans þar sem ég varpa sterku kastljósi að hinni svonefndu faglegu nálgun hins opinbera. 

Það er eðli mitt að leika mér að hugmyndum og því miður eru sumar þeirra hættulegar en sem betur fer flestar of mikið fyrir utan rammann til að þær fari víða eða skiljist hratt. Frá upphafi hef ég haldið því fram að ef þjóðin beitir valdakerfi sitt ofbeldi eða reynir byltingu þá mun fleira eyðileggjast en rúður eða hlutir sem skipta má út. 

Ég segi þetta því ég sé víða í umræðunni á Vefnum og heyri í fólki sem hefur kynnt sér skrif mín, að ofbeldi er aldrei lausn. Byltingar hafa ávallt étið börnin sín og þegar menn æða í að gera breytingar breytinganna vegna enda þeir ávallt með verra skrímsli en það sem vegið var. Íslendingar eru stærri þjóð en svo að þeir leggist svo lágt.

Ég ítreka eldri orð mín: Ofbeldi er aldrei úrræði. Bylting er engin lausn. Aðeins lýðræðissamræða grasrótar getur umbreytt samfélagi til betri vegar því þar breytist skoðun í afstöðu og þannig eru hin gömlu gildi endurmótuð og styrkt. 

Nýtt Ísland mun aðeins verða til í virðingu, friðsemd og festu hinnar skapandi afstöðu.