3.1.2017 kl. 19:24
Áróður um mat sem vekur spurningar
Ég er í þeim flokki karlmanna sem minnst er á. Ekki kominn með sykursýki en vissulega í áhættuhópi. Hef þyngst eins og aðrir karlar á mínum aldri um að meðaltali eitt kíló árlega frá tvítugu.
Læt fylgjast með hjarta og blóðþrýstingi reglulega og í síðustu skoðun sagði læknirinn mér að ég væri að nálgast rauða strikið með of háan blóðþrýsting. Eins og með fólk á mínum aldri kemur fyrir að maður fær bjúg, aðallega á fætur frá ökklum og upp á kálfa.
Í tvö ár hef ég gert tilraunir með mataræðið til að vinna með þessa þætti. Eitt af því fyrsta sem fauk voru vörur með kartöflumjöli. Þá minnkaði bjúgmyndun um helming og melting bætti sig.
Næst fauk þriðjungur kolvetnis þegar ég hætti með öllu að borða pasta og hrísgrjón ásamt því að skera niður kartöflur um tvo þriðju. Því næst fauk 80% af bakaríis brauði og tekinn var upp heimabakstur. Enn minnkaði bjúgmyndun og í tvö ár hef ég ekkert þyngst.
Gos hefur aldrei verið vandamál, eða því sem næst aldrei. Líklega drekk ég að meðaltali líter á viku, hugsanlega hálfan annan, en ég fylgist grannt með slíku. Þá er nær ekkert borðað af nammi utan þess að stelast í súkkulaði í sumum innkaupaferðum.
Reynt er að sniðganga ódýrari sykur-súkkulaði og fá sér þá vandaðri vöru og er maður fljótur að finna muninn þegar maður er orðinn vanur þessu.
Smám saman er ég að mjakast í átt að nátturúvænum - súkkuhúðuðum - hnetum og að eiga alltaf döðlur í krukku heima fyrir. Þá hefur grænmetisát verið aukið til muna og passað er að eiga ávallt ávexti, en þetta síðastnefnda hefur mér alltaf fundist bragðvont og fráhrindandi.
Það er sífellt talað um þetta með sykurinn og kolvetnin og eins og sjá má hef ég verið að einblína á þær breytingar, og sáttur við árangurinn. Þó brá mér í haust þegar ég snéri mér að mjólkinni. Ég elska vandað kaffi með mjólk. Ég er alinn upp í sveit og finnst ómenguð kúamjólk með því besta sem ég fæ.
Satt að segja held ég að það sé ofbeldi af hálfu ríkisins að ég má ekki hafa mína eigin kú í bakgarðinum og smáfjós í stað bílskúrs, en bíddu nú við.
Ég tók eftir því, síðastliðið haust, að yfir vikunna fór ég með fimm lítra af mjólk, sem gerir líklega 7,5 desilíter á dag. Ég ákvað að minnka mjólkurneyslu um helming og bjúgurinn minnkaði um helming. Í dag er ég nánast laus við bjúgmyndun og er ekki frá því að úlpan sé pínulítið rýmri um bumbuna í vetur.
Samsæringurinnn spyr; er einhverju laumað í Nýmjólk eða er gerilsneyðingin og fitusprengingin vond fyrir hið náttúrulega? Getur verið að umræðan um sykur og kolvetni sé of einhliða?
Ég hlýt að spyrja svona, því þó ég viti allt sem er þess virði að vita, og kunni skil allrar speki veraldar sem skiptir máli, þá veit ég ekki nóg um þetta málefni.