7.12.2016 kl. 18:05
Bjart er til fjalla hjá elítubörnum
Eitt sinn átti ég samræður við Íslenska húsmóður - hún er reyndar úng kona og mjög nútímaleg í sér, en hún er samt móðir og hún er vönduð húsfreyja - en við ræddum eins og svo oft ástandið í samfélaginu.
Ég spurði hana „hvað er að þessu fólki sem stjórnar skútunni, er það svona heimskt eða er það svona spillt?“ Svar hennar kom mér á óvart, eins og henni einni er lagið. „Kannski hafa þau alltaf haft það svo gott að þau halda að allir lifi jafn þægilegu lífi og þau.“
Ég sé minnst á ný lög um opinber fjármál - eða fjárlagagerð - en ég hef aldrei heyrt um þau en lofa að ég mun fletta þeim upp og lesa þau. Það er dálítið sérstakt að elítan er að ræða hvort við megum kjósa um einstök lög, en alls ekki um fjárlög.
Hér er flækjustig fjárlagagerðar aukið en um leið er það réttlætt með
lykilorðum á borð við stöðugleika og ábyrgð. Viðlag við gamalt stef.
Í stjórnarskrá Þjóðveldis er ákvæði sem tilgreinir að borgarar kjósa sjálfir um fjárlög. Þar er ekki útfært hvort það skuli gert á Héraðsþingum eða þetta vald afhent Allsherjarþingi. Andi stjórnarskrár Þjóðveldis er þó sá að sem allra mest vald sé hjá héruðum sjálfum og það verður gaman að sjá hvernig sú umræða fer fram eftir því sem Þjóðveldi vex.
Annað atriði sem er rætt um í bókinni Endurreist Þjóðveldi 2013, en hún var lögð til grundvallar sem Manifesto fyrir stjórnarskrá Þjóðveldis, að eðlileg fjárlög væru efnisflokkaskipt og skipting fjárreiða ríkisins og einnig skattaprósentur væru aðal kosningamál fjárlaga.
Sem dæmi er ákveðið hversu mikið embættin fá, eða heilbrigðis og samskiptageirinn, eða fógetar, sem hlutfall af heildarsjóðnum. Ennfremur að þjóðin ákveður sjálf hversu mikið flækjustig megi vera á skattheimtu og hver prósenta hinna ýmsu stiga sé.
Það sem bent er á í téðri bók, er þetta; Valdið er buddan. Sé um lýðræði að ræða en ekki lýgræði, sé þetta vald fært til lýðsins og lýðurinn fái tækifæri til að vaxa frá mistökum.
Jafnvel Umskiptingar geta skilið þennan einfaldleika, með tímanum.
Varðandi orðakvoðu Bjarna Benediktssonar, en eftir honum var haft í dag (á öðrum miðli) að Íslendingar hefðu aldrei haft það betra. Hann á líklega við Uppvakninga. Þess vegna stendur honum til boða að eyða með mér jólunum í kofanum mínum. Hann má ráða sjálfur hvað hann fær út á súrmjólkina; hvítan, brúnan, eða engan sykur.
Slátur og lýsi er þó ekki í boði. Hann verður að hafa það með sér að heiman.